Vesturbyggð: Þórdís Sif Sigurðardóttir nýr bæjarstjóri

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir verður næsti bæjarstjóri Vesturbyggðar. Samkomulag hefur náðst við hana og hefur hún störf 1. september næstkomandi. Gengið verður formlega frá ráðningunni á næsta fundi bæjarráðs.

Jón Árnason, forseti bæjarstjórnar segir að eining sé um ráðninguna.

Þórdís var bæjarstjóri í Borgarbyggð 2020-2022 og þar áður bæjarritari í Ísafjarðarbæ.

“Ég er virkilega spennt að flytja vestur, kynnast nýju fólki og verða hluti af nýju samfélagi en ég hef miklar taugar til Vestfjarða. Ég hlakka til að vinna fyrir Vesturbyggð í öllum þeim spennandi verkefnum sem eru framundan í góðu samstarfi við öfluga bæjarfulltrúa, starfsfólk og íbúa. Uppbygging í atvinnulífinu og íbúafjölgun kallar á ólíka verkefni í innviðauppbyggingu sem verður skemmtilegt að taka þátt í og vinna áfram að frekari umbótum í sveitarfélaginu. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt með ráðningunni.”  segir Þórdís Sif Sigurðardóttir.

DEILA