Lilja Rafney: ákvörðun ráðherra brýtur niður strandveiðikerfið

Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi alþingismaður gagnrýnir Svandísi Svavarsdóttur sjávarútvegsráðherra harðlega fyrir áform ráðherrans um að taka aftur upp svæðisskiptingu í strandveiðikerfinu.

„Í stað þess að tryggja nægar aflaheimildir í Strandveiðikerfið í 48 daga á öllu landinu kýs ráðherra að brjóta niður núverandi kerfi sem mikil þverpólitísk vinna var lögð í og markmiðið var að tryggja aflaheimildir í þessar umhverfisvænu og sjálfbæru veiðar sem efla sjávarbyggðir landsins“ segir Lilja Rafney í færslu á Facebooksíðu sinni.

Í samtali við Bæjarins besta sagði Lilja Rafney að ef svæðisskipting strandveiðanna yrði aftur upp tekin mætti búast við ólympískum veiðum eða kappveiðum þar sem menn róa í öllum veðrum. Svæðisskiptingunni fylgir að dagafjöldi sem róa má myndi gæti verið mismunandi eftir svæðum og reynslan af svæðisskiptingunni var einmitt sú að strandveiðibátar sem róa á A svæði, sem Vestfirðir eru hluti af, fengu færri daga en bátar á öðrum svæðum.

Lilja Rafney vill fremur styðja kerfið eins og það er nú og hafa meiri sveigjanleika í 5,3% aflaheimildapottinum sem rúmar strandveiðarnar og aðra úthlutun svo sem byggðakvóta. Eins bendir hún á að ólíkt því sem gildir um aðrar aflaheimildir er ekki heimilt í starndveiðunum að færa milli ára vannýttar heimildir.

Samleið með Vinstri grænum?

Lilja Rafney Magnúsdóttir vísaði til þess að vankantarnir, sem voru á svæðisskipta strandveiðikerfinu, leiddu til þess að á síðasta kjörtímabili undir hennar forystu sem formanns atvinnuveganefndar Alþingis, hefði verið unnið að lagfæringum um þriggja ára skeið frá 2018 og að ná samstöðu um þær breytingar sem m.a. leiddu til afnáms svæðaskiptingarinnar. Sagðist hún undrandi yfir þessu. „það er eins og enginn áhugi sé á því að kynna sér þá vinnu sem unnin var undir forystu Vinstri grænna.“

Í færslunni á Facebook segir Lilja Rafney ennfremur: „Ég er hugsi yfir því hvort ég eigi samleið með Vinstri grænum lengur þegar svo illa ígrundaðar ákvarðanir eru gerðar án samráðs þvert á stefnu VG um að efla Strandveiðar.“