Suðureyri: framkvæmdum við Brjótinn seinkað um ár

Bæjastjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt seinkun á framkvæmdum við brjótinn á Suðureyri um eitt ár og heimilað aðilaskipti á samningi Fisherman við bæinn frá 24.4. 2020. Dóttufyrirtæki Fisherman, sem heitir Hafnarstaðir ehf, mun taka við réttindum og skyldum Fisherman.

Framkvæmdaaðili greiðir kostnað við landfyllinguna en fær í staðinn rétt til að fá lóðarleigusamning úr hendi Ísafjarðarbæjar fyrir allar lóðir á svæðinu. Áætlaður kostnaður við landfyllinguna var fyrir ári áætlaður um 180 m.kr. Lóðarleigusamningar sem gerðir verða á grundvelli þessa samnings skulu vera til 50 ára.

Í fyrsta áfanga verksins, sem gert er ráð fyrir að taki 2 ár, verður komið fyrir 22.000 rúmmetrum af efni. Alls er verkið landfylling um 30.000 fermetra að stærð og efnismagnið um 100.000 rúmmetrar, þar af um 7.000 rúmmetrar af grjóti. Verktíminn er áætlaður um 5 ár. Eftir breytinguna er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi hefjist eigi síðar en 1. maí 2023 og ljúki eigi síðar en 30. apríl 2026.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að stuðla að auknu framboði á byggingarlandi fyrir iðnaðar- og athafnastarfsemi á Suðureyri. Einnig er markmiðið að skapa aðstöðu fyrir starfsemi Fisherman og stuðla að vexti fyrirtækisins á Suðureyri í Ísafjarðarbæ.

Skipulagsstofnun úrskurðaði í júlí 2021 að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.

DEILA