Ferðafélag Ísfirðinga: Lambeyrarháls

Gönguleið frá Patreksfirði yfir Lambeyrarháls og niður að bænum Lambeyri í Tálknafirði.       

Á slóðum sögunnar Sigurverkið e. Arnald Indriðason.

Sunnudaginn 3. júlí kl. 9 frá Bónus á Ísafirði

Vegalengd: 6,5 km

Upphækkun í um 430 m. hæð

Tímalengd: 3 – 4 klst.

Fararstjórar: Örn Smári Gíslason og Emil Ingi Emilsson

Gengið upp frá Patreksfirði þægilega leið austnorðaustur Litladal og fyrir norðan Kríuvötn upp á Lambeyrarháls í um 430 metra hæð. Þaðan norðaustur og niður varðaða heiðina. Síðan fyrir austan brún Smjörskálar og Smælingjadals niður nokkuð bratta leið að Lambeyri í Tálknafirði. Þessa leið mátti reyndar einnig fara með hesta. Enn markar fyrir slóðinni fyrir utan túnið á Lambeyri. Það er reyndar til önnur þægilegri en um leið lengri leið innar í firðinum og þá niður að bænum Hvammeyri. Hún verður bara gengin næst.

Á leiðinni verða rifjuð upp þau málsatvik sem leiddu til aftöku þeirra Sigurðar ella Jónssonar sem bjó á Geirseyri og ráðskonu hans Guðrúnar Valdadóttur.  Sigurður bjó lengi í hjónabandi með Helgu Jónsdóttur frá Hænuvík og átti með henni a.m.k. tvo syni þá Þórarin og Jón. Sá síðarnefndi mun hafa farið utan og numið sigurverkasmíð. Honum átti síðar eftir að takast að lagfæra klukku eina, sigurverk snilldarlega smíðað, sem geymd er í Rosenborgarhöllinni. Við hana er æ síðan tengt nafn þessa íslenska úrsmiðs, Jóns Sigurðssonar, sem reyndar hafði tekið sér nafnið Jon Sívertsen í Kaupmannahöfn. Síðasta bók Arnaldar Indriðasonar, Sigurverkið, byggir á þessum atburðum. Lesið verður upp úr nokkrum köflum sögunnar í nestisstoppi og sögustundum á leiðinni.

Geirseyri er nú reyndar nefnd Gesseyri í fornum skjölum en síðar hefur Geirseyrarnafnið yfirtekið þetta gamla heiti.

Herflokkur Ara Magnússonar í Ögri hefur mjög sennilega farið yfir Lambeyrarháls þegar átti að berjast við Baskana sem voru á Patreksfirði. Hann varð hins vegar að frá að hverfa vegna hríðarveðurs.

Rifjuð upp saga af mikilli aflraun sem Hafliði Jónsson frá Eyrum skrifaði um og tengist ferð yfir Lambeyrarháls. Hafliði, bróðir Jóns úr Vör, fékkst nokkuð við ritstörf og skrifaði m.a. ævisögu Kristínar Dahlstedt veitingakonu frá Dröngum í Dýrafirði. Hann gegndi einnig stöðu garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar í tæpa þrjá áratugi og átti m.a. þátt í því að gera Laugardalinn að því útivistarsvæði sem hann er í dag, kom Grasagarðinum þar á legg, hannaði Austurvöllinn eins og hann er í dag og átti þátt í stofnun Árbæjarsafnsins.

Þá verður sagt frá ýmsum þjóðsögum og sögum af mönnum og atburðum sem tengjast umhverfi gönguleiðarinnar m.a. af drauginum Klaufa og huldufólki í Lambadal.

Það er svo auðvitað tilvalið að fá sér að borða á góðum veitingastað á leiðinni heim og sjálfsagt langar sumum að fara í pottinn eða laugina í Reykjafirði.  Þá er að sjálfsögðu eindregið mælt með því þátttakendur taki með sér sundföt.

Þeir sem ætla að taka þátt í ferðinni eru beðnir um að skrá sig á netfangið ferdafelag.isfirdinga@gmail.com fyrir kl. 12.00 föstudaginn 1. júlí. Þá er gert ráð fyrir því að fara til baka í rútu frá Lambeyri yfir á Patreksfjörð. Það þarf því að greiða þátttökugjald. Þeir sem eru félagsmenn í FÍ eða FFÍ greiða 2.500 kr. en aðrir greiða 3.000 kr.

Þátttökugjald á að greiða inn á rkn. 0556 – 26 – 000451, kt. 700410 – 0560. Það ber að greiða um leið og þátttakendur skrá sig í ferðina.

DEILA