Úkraínuforseti ávarpar Alþingi

Ávarp Volodímírs Selenskís, for­seta Úkraínu, til alþing­is­manna og ís­lensku þjóðar­inn­ar í gegn­um fjar­funda­búnað sl. föstu­dag við sér­staka at­höfn í þingsal Alþing­is var sögu­legt. Þetta var í fyrsta skipti sem er­lend­ur þjóðhöfðingi flyt­ur ávarp í þingsal Alþing­is og mark­ar tíma­mót.

Úkraínska þjóðin heyr nú ein varn­ar­stríð til að verja fóst­ur­jörð sína, sjálf­stæði, frelsi og mann­rétt­indi og þjóðerni sitt. Það er stríð í Evr­ópu. Inn­rás­in í Úkraínu ógn­ar friði í heim­in­um en eng­in vissa er því fyr­ir að átökin tak­markist við Úkraínu. Inn­rás­in er ógn við það alþjóðakerfi sem verið hef­ur við lýði all­an lýðveld­is­tím­ann, eða frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar og bygg­ir á virðingu fyr­ir alþjóðalög­um.

Ræða Selenskís Úkraínu­for­seta er áhrifa­mik­il og mik­il­væg. All­ir eru hvatt­ir til að lesa ræðuna, en hana má finna á vef Alþing­is. Úkraínu­for­seti bend­ir okk­ur á að fleiri en 500.000 Úkraínu­menn hafi nú verið svipt­ir skil­ríkj­um sín­um og flutt­ir á brott til Rúss­lands með valdi.

For­set­inn segir m.a. í ræðu sinni eft­ir­far­andi: Bar­átt­an nú snýst um frelsið, þetta land sem við eig­um með réttu, og um menn­ingu okk­ar, en hún birt­ir þjóðareðli okk­ar og grein­ir okk­ur frá ná­grönn­um okk­ar, og hún varðveit­ir þráðinn sem ligg­ur milli okk­ar, barn­anna okk­ar og þeirra kyn­slóða sem á und­an komu.

Í upp­hafi ræðu sinn­ar minn­ir Úkran­íu­for­seti okk­ur á að Úkraína og Ísland teng­ist sterk­um bönd­um, að við höf­um þekkst vel í meira en þúsund ár og að forfeður okk­ar hafi átt auðvelt með öll sín sam­skipti. Þessi sterku bönd minna okk­ur á sigl­ing­ar nor­rænna manna á miðöld­um til aust­urs, upp fljót­in sem renna í Eystra­salt og niður þau til Svarta­hafs. Um­fjöll­un okk­ar um nor­ræna miðalda­heim­inn tak­mark­ast um of við hinn vestn­or­ræna heim sem Ísland var hluti af. Það tak­mark­ar skiln­ing okk­ar á mik­il­vægi vík­inga­tím­ans og ís­lenskr­ar sagna­rit­un­ar. Forn­sag­an Ey­mund­ar þátt­ur Hrings­son­ar minn­ir á tengsl Norður­landa og Úkraínu. Sag­an ger­ist í Garðaríki (Úkraínu) og seg­ir frá Íslend­ing­um og öðrum nor­ræn­um mönn­um þar. Garðaríki var upp­haf­lega stofnað af Sví­um og nor­ræn­ir menn og af­kom­end­ur fóru þar lengi með völd. Kænugarður (Kyiv) er við Dnépr-fljót á versl­un­ar­leiðinni á milli Skandi­nav­íu og Miklag­arðs (nú­ver­andi Ist­an­búl). Norðmenn hafa ætíð horft út á Atlants­hafið en Sví­ar til aust­urs.

Svíþjóð og Finn­land ræða nú inn­göngu í NATO vegna inn­rás­ar Pútíns. Eystra­salts­rík­in eru í NATO. Við Íslend­ing­ar hljót­um að styðja ein­huga skjóta inn­göngu þess­ara nor­rænu vinaþjóða okk­ar í NATO, kjósi þær að tryggja ör­yggi sitt með inn­göngu. Með henni skap­ast for­send­ur til ná­inn­ar varn­ar­sam­vinnu Norður­landa inn­an NATO. Inn­rás­in í Úkraínu sýn­ir mik­il­vægi aðild­ar Íslands að NATO og Varn­ar­samn­ingi okk­ar við Banda­rík­in, sem eru grunnstoðir ör­ygg­is- og varn­ar­mál­a okk­ar.

Úkraína er ekki aðild­ar­ríki NATO en Íslandi á að standa þétt með vest­ræn­um þjóðum í stuðningsaðgerðum sín­um með hinni hug­rökku úkraínsku þjóð á ör­laga­tím­um í sögu sinni. Við eig­um að taka vel á móti Úkraínu­mönn­um sem hingað leita og veita aðstoð flótta­mönn­um sem streyma frá Úkraínu til Pól­lands og annarra ríkja Evr­ópu. Það ger­um við með að bjóða sér­fræðiaðstoð og senda fjár­magn til alþjóðastofn­ana og sam­taka sem sinna mót­töku flótta­manna.

Ræða Selenskís, for­seta Úkraínu, minn­ir okk­ur á mik­il­vægi þess að Ísland sýni sam­stöðu með úkraínsku þjóðinni í þessu gríðarlega mik­il­væga máli sem varðar grund­völl lýðræðis, mann­rétt­inda og sjálf­stæðis þjóða. Það var vel við hæfi að hún var fyrsta ræða er­lends þjóðhöfðingja á Alþingi og er von­andi upp­hafið á nýrri hefð á Alþingi Íslend­inga. Ræðan minn­ir á mik­il­vægi virkr­ar þátt­töku okk­ur sem sjálf­stæðrar herlausr­ar smáþjóðar í sam­starfi lýðræðisþjóða. Með ræðu sinni í þingsal Alþing­is færði Úkraínu­for­seti boðskap þjóðar sinn­ar sem berst fyr­ir til­vist sinni og frelsi. Það er boðskap­ur sem varðar okk­ur öll.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi.

DEILA