1. maí: hækkun lágmarkslaun verði 500 þúsund krónur

Finnbogi Sveinbjörnsson. Mynd: Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga sagði í 1. maí ræðu sinni á Ísafirði í gær að skilaboð félagsmanna Verkalýðsfélags Vestfirðinga væru alveg skýr : lægstu laun ættu að hækka umfram önnur laun og að gamla úr sér gengna taxtalaunkerfið verði aflagt.

„Samið verið um krónutölur í langtíma samningi, þannig að lágmarkslaun í lok samningstíma verði ekki undir 500 þúsund krónum!

Þá verði öllum tryggt aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og skattkerfið verði nýtt til frekari tekjujöfunar til handa láglaunafólki.“

Finnbogi sagði að félagsmenn verkalýðsfélaganna væru tilbúnir í átök til þess að ná þessum kröfum fram, samkvæmt skoðanakönnunum félaganna.

Verkvest fordæmir uppsagnir hjá Eflingu

Finnbogi Sveinbjörsson vék að uppsögnum hjá Eflingu og sagði að bæði stjórn og trúnaðarráð Verk Vest hafi sent frá sér skýr og harðorð skilaboð þar sem óviðeigandi framganga forustufólks er harðlega fordæmd, en lagði engu að síður mikla áherslu á samvinnu innan ASÍ við komandi samningagerð og sagði að nauðsynlegt væri fyrir þá sem starfa í fylkingarbrjósti að vinna sameiginlega að hagsmunum félagsmanna.

„Gleymum því aldrei að dýrmætasta afl launafólks er samstaðan, í samstöðunni felst okkar mesti styrkur. Einmitt sá mikli styrkur skilar fólkinu sem vinnur stærstu sigrunum.“

Þá vék Finnbogi að misskiptingunni í þjóðfélaginu og hinnu umdeildu bankasölu í Íslandsbanka.

„En okkur ber líka skilda til að standa saman gegn þeirri spillingu og misskiptingu sem gegnsýrir íslenskt samfélag.

Nýjasta útspilið er sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka á afsláttarkjörum til sérvaldra aðila. Sá gjörningur staðfestir að slíkt er ekki á undanhaldi í íslensku samfélagi.

Viljum við byggja þannig samfélag, sem er stýrt af gróðasjónamiðum, einstaklingshyggju og ójöfnuði?  Nei, svo sannarlega ekki.

Við viljum byggja samfélag þar sem allir njóta réttlátrar og sanngjarnar skiptingar af verðmætasköpun þjóðarbúsins.“

Minnti hann svo á kannanir á kjörum vinnandi fólks sem sýndu að þúsundir barna elst upp við fátækt og staðfesti „ömurlega stöðu einstæðra kvenna og karla í láglaunastörfum. Jafnframt er staðfest að stór hópur aldraðra og öryrkja nær ekki endum saman.“

Lifsnauðsynlegt væri að lífsnauðsynlegt að niðurstaða komandi kjaraviðræðna verði meira en tilraun til að laga þetta óréttlæti sagði Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

DEILA