Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að olíulekinn á Suðureyri 16. febrúar og lekinn sem vart varð við á föstudaginn séu tvö ótengd mál.
„Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hafði samband við starfsmenn Orkubúsins 17. febrúar vegna tilkynningar um olíulykt og mengun í tjörn við sundlaugina á Suðureyri. Eftirlitið kom á staðinn og gerði skýrslu, en þá voru starfsmenn Orkubúsins þegar að störfum við hreinsun, enda hafði einnig borist tilkynning til fyrirtækisins símleiðis. Í ljós kom að um minniháttar leka var að ræða innandyra þar sem olía hafi lekið á gólf og þaðan í ræsi og í olíugildru utandyra. Sprunga hafði komið í lok á olíusíu við brennarann á katlinum og hafði olían runnið á gólfið, þaðan í ræsið og í olíuskilju utan við húsið. Áætlað magn var einhverjir tugir lítra skv. skýrslu.
Sjáanleg olíubrák var á tjörninni sem er nokkuð neðan kyndistöðvarinnar og var sett felliefni í hana. Starfsmenn komu strax í veg fyrir frekari leka með því að skipta um lok á síunni og hefur ekki orðið vart við frekari leka innandyra síðan. Ekki komu frekari kvartanir vegna þessa á þeim tíma.“
Seinni lekinn eftir áfyllingu 3. mars
Um seinni olíulekann segir Elías:
„Lekinn núna er af allt annarri stærðargráðu og því miður mun alvarlegri, en hann kemur frá olíubirgðatanki sem er neðanjarðar utan við kyndistöðina.
Eftir að hafa farið vandlega yfir gögn um afgreitt magn olíu á kyndistöðina og orkuframleiðslu hennar allt frá því 1. janúar og til 4. mars. þá telur Orkubú Vestfjarða vera ljóst að lekinn hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir að olía er afgreidd á tankinn og hann fylltur um hádegisbil fimmtudaginn 3. mars.“