Launakostnaður á unna stund var 6.496 krónur1 á Íslandi árið 2021. Launakostnaður var lægstur í rekstri gististaða og veitingarekstri, 4.789 krónur eða 31,9 evrur, en hæstur í fjármála- og vátryggingarstarfsemi þar sem hann var 9.096 krónur á unna stund eða 60,6 evrur.
Launakostnaður í ríkjum Evrópusambandins var 29,1 evra að meðaltali og 32,8 evrur á evrusvæðinu. Af þeim ríkjum sem talnaefni Eurostat nær til var launakostnaður á unna stund hæstur í Noregi (51,1 evra), Danmörku (47,4 evrur) og á Íslandi (43,3 evrur).
Af hinum Norðurlöndunum var launakostnaður lægri í Svíþjóð (39,7 evrur) og Finnlandi (35,1 evra). Lægstur var launakostnaður í Búlgaríu (7 evrur) og í Rúmeníu (8,5 evrur).
Við samanburð á launakostnaði á milli landa er rétt að hafa í huga að gengi og verðlag getur haft áhrif á stig launakostnaðar í evrum.
Launakostnaður er samtala launagreiðslna og launatengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta.
Niðurstöður eru bráðabirgðatölur og eru hluti af þróunarverkefni sem Hagstofan hefur unnið að en verkefnið byggir á hagnýtingu fjölbreyttra gagna.