Ísafjarðarbær: Lífeyrisskuldbindingar hækka langt umfram áætlanir

Kostnaður Ísafjarðarbæjar vegna lífeyrisskuldbindinga hækkar töluvert samkvæmt niðurstöðum útreiknings ráðgjafafyrirtækisins Talnakönnunar. Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar sem kynnt var bæjarráði þann 28. febrúar.

„Ísafjarðarbær, eins og flest önnur sveitarfélög á Íslandi, varð fyrir verulegri hækkun á lífeyriskuldbindingu síðasta árs. Þannig verður gjaldfærð hækkun vegna þessa í ársreikningi síðasta árs 390 milljónir króna sem er langt umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir og langt umfram hækkun síðustu ára,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Í áætlun 2021 var gert ráð fyrir að lífeyrisskuldbinding í árslok yrði 1.885 m.kr. og gjaldfærð hækkun yrði 72 m.kr. Miðað við endanlega útreikninga fyrir árið 2021 mun skuldbindingin nema 2.203 m.kr. og hækkunin því vera 390 m.kr. eða 318 m.kr. hærri en áætlað var.

Að sögn Birgis er skýringin m.a. hækkun launa ásamt breyttum forsendum varðandi væntan lífaldur þeirra sem fá greiddan lífeyri úr B deild Lífeyrissjóðs ríkisins.

„Mikilvægt er að Samband sveitarfélaga beiti sér í því gagnvart ríkisvaldinu að þessum álögum verði létt af sveitarfélögum,“ segir Birgir. „Lífeyrisskuldbindingin er að stórum hluta til komin vegna starfsmanna sem áður tilheyrðu verkefnum sem heyrðu undir ríkisvaldið og því ekki óeðlilegt að horft verði til þess að létta þessum álögum af sveitarfélögum.“

DEILA