Norðanverðir Vestfirðir: töluverð snjóflóðahætta

Í spá Veðurstofu Íslands um snjóflóðahættuna í dag segir að hún sé töluverð á norðanverðum Vestfjörðum.

Fram kemur að bætt hafi á snjó í A- og NA-áttum í vikunni. „Það hefur verið mjög hvasst og mikill snjóflutningur og svo hlánaði á föstudag/laugardag og snjór blotnaði og fraus á ný uppí miðjar hlíðar. Í gærkvöldi snjóaði talsvert ofan á rigningaskarann í hægum vindi. Spáð er NA-hríð á mánudag og búast má við miklum skafrenningu. Rigningaskarinn undir getur skapað veikt lag sem þarf að fylgjast með.“

Nýleg snjóflóð

Stórt flekaflóð féll í Mærðarhorni, Bolungarvík í gærkvöldi 27.2. Í NA-óveðrinu á miðvikudag féllu nokkrar spýjur yfir veginn um Súðavíkurhlíð, 100 m breitt snjóflóð yfir veg í vestanverðum Hestfirði. Spýjur féllu í vestanverðum Bjarnadal, Önundarfirði og eitt nokkuð breitt flekaflóð á Gemlufallsheiði.

Á Vestfjörðum er appelsínugul viðvörun. Norðaustan 18-25 m/s og talsverð snjókoma eða skafrenningur með lélegu skyggni. Ekkert ferðaveður.

DEILA