Hættustig á Patreksfirði

Mynd af framkvæmdum við ofanflóðavarnir á Patreksfirði í sumar.

 Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að rýma hluta rýmingarreits 4 á Patreksfirði og hættustigi er lýst yfir. Minniháttar snjóflóð féll aðfaranótt sunnudags ofan við þennan rýmingarreit. Varnargarður ver hluta reitsins en framkvæmdir eru hafnar við garð sem á að verja þann hluta sem nú hefur verið rýmdur.

Í framhaldi þess hafa 8 íbúðarhús verið rýmd, annars vegar hús nr. 15, 17 og 18 við Hóla og hins vegar hús nr. 15,16,17,18 og 19 við Mýra. Alls er um að ræða 28 íbúa sem þurfa þannig að yfirgefa húsin sín, tímabundið.

Veðrið á Patreksfirði hefur versnað mikið, vindur er kominn í austan rúmlega 20 m/s á Brellum, það snjóar töluvert og skefur. Veðurspáin fyrir nóttina gerir ráð fyrir austan og norðaustan 20-28 m/s með talsverði snjókomu í nótt. 

Óvissustig á Vestfjörðum

Þá hefur Veðurstofan lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum. Töluverður snjór er nú þegar á svæðinu og hefur skafið mikið í hvössum austanáttum síðustu daga. Minniháttar snjóflóð féll á Patreksfirði aðfaranótt sunnudags, ofan við varnargarð í byggingu, og minniháttar snjóflóð féllu einnig í Skutulsfirði um helgina.

DEILA