Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum fær 21 m.kr. styrk

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum hlaut verkefnisstyrk frá Rannsóknasjóði Rannsóknaráðs Íslands (Rannís) til verkefnisins “Innri og ytri áhrifaþættir við upphaf fars Atlantshafsþorsks”. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur, og forstöðumaður rannsóknasetursins, er verkefnisstjóri en verkefnið er unnið í samstarfi við vísindamenn hjá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Danska Tækniháskólann. Verkefnið var styrkt til þriggja ára og er styrkfjárhæðin 21.250.000 kr.

Guðbjörg Ásta var beðin um að lýsa rannsóknarverkefninu.

„Forsenda rannsóknarinnar er að ólíkar fargerðir finnast innan þorskstofnsins við Ísland. Það er vel þekkt að fjölmörg gen eru ólík á milli fargerðanna en það er lítið þekkt hvort, eða að hve miklu leiti, þessi erfðafræðilegi munur veldur ólíkri farhegðun. Seiði af báðum fargerðum nýta strandvæði sem uppeldisstöðvar og það er ekki vitað hvort það er munur á búsvæðanýtingu þegar á seiðastigi,  hvort umhverfisval eða hegðun seiða af ólíkum fargerðum er eins, og hvað það er sem hvatar farhegðunina þ.e. hvað veldur því að sum seiði færa sig út úr fjörðunum á meðan önnur dvelja þar lengur, eða jafnvel alla tíð.

Í verkefninu verður fjöldi þorskseiða á öðru og þriðja ári merktur með hljóðmerkjum og sleppt innan kerfis hlustunardufla í Dýrafirði. Merkin gefa upplýsingar um ferðir seiðanna um fjörðinn og hvenær þau yfirgefa fjörðinn. Auk upplýsinga um staðsetningu skrá merkin dýpi, umhverfishita og sundhraða einstakra seiða. Grunnrannsóknarspurningin er hvort að þessir þættir séu ólíkir hjá seiðum af ólíkum fargerðum, þ.e. seiðum með mismunandi gen, en einnig verður kannað hvaða áhrif sjávarhiti hefur á staðsetningu og hegðun seiðanna.

Í nútíma eru hraðar umhverfisbreytingar í strandsjó og álag á búsvæði fiska er mikið. Það skiptir miklu fyrir viðhald stofna og tegunda að líffræðilegum fjölbreytileika sé viðhaldið innan tegunda. Þetta á ekki síst við um stofna sem eru undir annars konar álagi s.s. vegna nýtingar. Niðurstöður úr þessu verkefni auka hagnýta þekkingu, t.d. þannig að hugað sé að viðhaldi uppeldisstöðva með það að markmiði að viðhalda ólíkum fargerðum. Þær eru hinsvegar líka líklegar til að stuðla að auknum grundvallar skilningi á því hvernig breytileiki í farhegðun verður til og er viðhaldið innan tegunda en sú þekking er afar mikilvæg til að spá fyrir um breytingar á dreifingu og fari fiska, t.d. vegna loftslagsbreytinga.“

DEILA