Bjarni Jónsson: mikilvægt að ráðast í Súðavíkurgöng

Bjarni Jónsson, alþm.

Bjarni Jónsson, alþm Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi sagði það mikilvægt í umræðum á Alþingi í gær að  innanríkisráðherra og Alþingi tryggi það í samgönguáætlun og með nauðsynlegum fjárveitingum að ráðist verði í Súðavíkurgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar í Ísafjarðardjúpi. Sú jarðgangagerð þolir ekki lengri bið sagði Bjarni.

„Þá þarf strax að efla snjóflóðavarnir í Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum og tryggja vegi gegn grjót- og aurskriðum uns jarðgangagerð er lokið. Auk þess að tryggja ferðaöryggi fólks munu slík jarðgöng fela í sér byltingu fyrir byggðarlagið og opna á frekari tækifæri til uppbyggingar atvinnulífs og samfélags á svæðinu. Þá er vert að benda á að það samrýmist ekki áætlunum stjórnvalda um orkuskipti að ætla Ískalki að brenna jarðefnaeldsneyti vegna óbreyttrar kerfisáætlunar Landsnets og viljaleysis og arðsemiskrafna Orkubús Vestfjarða til að bæta afhendingaröryggi og framboð á raforku í Súðavík. Lagning strengs um göng væri bæði öruggari og ódýrari og vegur upp á móti kostnaði við göngin. Auk þess eru orkuskipti fram undan við hafnir og í samgöngum sem eru nánast ógerningur miðað við framboð á raforku í Súðavík, innan við 2 megavött. Jarðgöngin munu tryggja ferðaöryggi fólks, opna gott aðgengi fyrir framtíðarbyggingarland, stuðla að sjálfbærri uppbyggingu atvinnulífs og skapa samfélaginu á svæðinu enn frekari tækifæri til vaxtar. Hér þarf strax að bregðast við.“

DEILA