Jólahefðir – ýmislegt

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði.

Ein af hefðum jólanna sem ég býst við að sé dottin uppfyrir á flestum heimilum er húslestur á aðfangadagskvöld. Vaninn var að lesin var Vídalínpostilla og þótti bera sérstaklega vel í veiði ef vel læs maður og góður sagnamaður var til taks á aðfangadag.

Annað sem hefur væntanlega breyst á flestum heimilum og frekar orðið venja er að spila á jólunum. Lengi vel var á mörgum heimilum bannað að spila á jólunum, amma mín sem fædd var 1918 hélt fast í þessa hefð að bannað væri að spila.

Matarhefðir hafa breyst mikið, flestir kannast við að rjúpa var fátækramatur, það er aldeilis breytt, ætli rjúpan flokkist ekki frekar sem heldrimanna matur í dag svo dýr er hún.

Færri kannast við að hafa bjúgu í jólamatinn, þá eru þau þverskorin og sett í ofn með gljáa. Þetta var sannarlega fátækramatur og er meðal annars minnst í þónokkrum bókum þar sem er verið að rifja upp lífið í braggahverfunum, meðal annars í Undir bárujárnsboga eftir Eggert Þór Bernharðsson.

Ég minntist á það í fyrri grein að á mörgum stöðum hafa jólahefðir erlendis frá verið teknar upp og má yfirleitt tengja það við erlenda farandverkamenn.

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að franskar jólahefðir viðhaldast að einhverju leyti til ennþá á Fáskrúðsfirði. Meðal þess er að hafa ákveðna tegund af smjörkremsköku, skreytta á ákveðin máta með morgunkaffinu á Jóladagsmorgun. Þessari köku svipar ekkert til þeirrar klassísku íslensku sem við þekkjum nú flest.

Í mörgum sjávarplássum tíðkaðist að hittast niður á bryggju á Jóladagsmorgun til að minnast þeirra sem farist höfðu á sjó. Ég hef heyrt af þessari hefð bæði frá Siglufirði og Eskifirði og má því leiða að því líkum að þetta hafi viðhafst á fleiri stöðum á landinu.

Mér finnst við hæfi að enda á þessari fallegu hefð og legg til að við tökum hana upp hérna fyrir vestan.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA