Hvers virði er samkomulag við Ísafjarðarbæ?

Frá undirskrift samningsins milli Hendingar og Ísafjarðarbæjar.

Á fundi Bæjarráðs Ísafjarðarbæjar þann 22. nóvember síðastliðinn var tekið fyrir erindi mitt um uppbyggingu og rammasamning við Hestamannafélagið Hendingu. Skemmst er frá því að segja að bæjarráð kemst að þeirrri niðurstöðu að standa ekki við gert samkomulag frá því í maí 2017, um uppbyggingu reiðhallar í Engidal. Samkomulag þetta geta lesendur skoðað á netinu undir þeim gögnum sem bæjarráð tók afstöðu til  ásamt greinargerð sem Þórdís Sif Sigurðardóttir fyrrverandi bæjarritari lagði fram 4. nóvember 2019 og minnisblaði Hafdísar Gunnarsdóttur og Axels Överby Rodriques frá 18. nóvember 2021.

Minnisblað Þórdísar er á margan hátt gott innlegg í þá umræðu sem hér er til umfjöllunar. Þar tíundar hún það sem gert hefur verið. Athygli skal vakin á því að bréfið er samantekið nær tveimur og hálfu ári eftir að samkomulag náðist á milli Hendingar og Ísafjrðarbæjar. Er þar einhliða túlkað það sem hentar við lestur þessa samkomulags og fullyrt að ekki hafi annað verið með samkomulaginu.

 Sem dæmi um þetta má nefna:

  1. Fjárhæðir til verkefnisins voru ákveðnar og festar á blað í júní 2017, óverðbættar á hlut Ísafjarðarbæjar.
  2. Ákveðið var á sama tíma hvaða verkþættir ættu að koma í uppbyggingar og rammasamning sem undirritaður yrði í febrúar 2018.
  3. Rammasamningur skyldi gerður til 5 – 7 ára.
  4. Í það er látið skína að Hestamannafélagið Hending hafi ekki hafið framkvæmdir á árinu 2017 af eigin frumkvæði en ekki nefndar sannar ástæður þess. Hið sanna í málinu er að það tók 10 mánuði að fá byggingarleyfi á lóð sem ætluð var fyrir reiðhöll þar sem byggingarreiturinn var 5 metrum of stuttur fyrir reiðhöllina. Því var ekki hægt að hefja teikningu á reiðhöllinni fyrr en 10 mánuðum eftir umsókn, vegna þess að lóðanúmerið var ekki útgefið af Ísafjarðarbæ. ( Heppni eða óheppni?) Í janúar 2018 lágu fyrir drög að rammasamning eins og samkomulag var um. Uppsetning rammasamningsins var gerð í fullri sátt við þáverandi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Gísla H. Halldórsson. Meðal annars var ákveðið að samningurinn yrði gerður til 7 ára og lyki árið 2024. Á fundi sínum þann 17. janúar 2018 óskaði íþrótta og tómstundanefnd eftir því að breytingar yrðu gerðar á rammasamningnum á árinu 2018, með þeim hætti að í stað 7,2 milljóna á árinu 2018 yrðu 3 milljónir til að veita bæjarstjórn svigrúm til að taka tillit til þessa kostnaðar í fjárhagsáætlun komandi ára. Þessar breytingar voru gerðar og íþrótta- og tómstundanefnd samþykkti rammasamninginn á fundi sínum þann 30. apríl 2018. 

     Ekki hafði samningurinn verið undirritaður enn þó komið væri fram í maí.

  • Þar má sjá að fullyrðing Þórdísar í sínu minnisblaði frá 4. október 2019 til bæjarráðs um að öll atriði samningsins hafi verið uppfyllt af hálfu Ísafjarðarbæjar eigi ekki við rök að styðjast.
  • Einnig staðfestir hún að efni sem leggja átti til verksins hafi ekki verið skilað og hafnað þegar eftir því var leitað. Það er skemmst frá því að segja að vegna óskar frá núverandi meirihluta í Ísafjarðarbæ var afgreiðslu mánsins frestað fram yfir kosningar og frestað enn á ný þann 12. júní 2018 á nokkurra vísbendinga um málsmeðferð þess.

Fulltrúar bæjarstjórnar hafa verið stóryrtir um þessi mál og talið það óþarfa að eyða svo miklu fé til uppbyggingar á einni íþrótt. Hjá því verður ekki komist að minna þá á að kostnaðarmat þessa framkvæmda er fundið með því að verðmeta sambærilegar eignir og voru í eigu Hestamannafélagsins Hendingar á Búðartúni. Kostnaðarmatið var gert í bæjarstjóratíð Daníels Jakobssonar. Þó efndir yrðu engar þá.

Kostnaðaráætlunin í desember 2011 var rúmar 72 milljónir króna án virðisaukaskatts eða um 2 milljónum hærri en krónutala þess samnings sem Ísafjarðarbær neitar að samþykkja á verðlagi nóvember 2021, eða 10 árum seinna. Þó er munurinn sá að Ísafjarðarbær á völlinn eftir framkvæmdir á nýjum stað sem Hending átti áður. Við getum einnig ef við hlustum á fundi bæjarstjórnar frá þessum tíma heyrt bæjarfulltrúa hæðast af getu Hendingar til að byggja reiðhöll fyrir það fjármagn sem lagt var til verksins eða samtals 50 milljónir króna.

Því er best til að svara að gerðum okkur alveg grein fyrir þeirri áhættu sem við vorum að taka og höfum staðið við okkar hlut. Húsið er risið þó enn sé unnið við frágang á félagsheimili í enda hússins. Peningurinn er ekki búinn svo það verður seint sem bæjarsjóður þarf að draga okkur að landi með það. Á sama tíma hefur eignarhlutur Ísafjarðarbæjar nær tvöfaldast í verði, við litla fyrirhöfn. Það er því skömm sem félagsmenn Hendingar hafa á bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir afgreiðslu bæjarráðs 22. nóvember 2021. Þessi ákvörðun á ekkert skylt við pólitík eða peningalega varfærni. Hún er byggð á illgirni í garð hestamanna sem svona kemur fram í sinni verstu mynd.

Formaður Hestamannafélagsins Hendingar

Marinó Kr. Hákonarson

DEILA