Edinborgarhúsið fær starfsmann

Vesturferðir eru til húsa í Edinborgarhúsinu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að ganga til viðræðna við stjórn Edinborgarhússins um að sveitarfélagið komi að ráðningu starfsmanns í húsið sem tæki að sér daglega umsýslu, auk verkefna fyrir sveitarfélagið í menningarmálum.

Edinborgarhúsið, sem er eitt af menningarhúsum landsins hefur verið án starfsmanns í rúmlega tvö ár vegna fjárhagserfiðleika. Hefur stjórn þess knúið á bæjaryfirvöld og menntamálaráðuneytið um úrbætur til þess að tryggja rekstur þess.

Í síðustu viku sendi stjórn Edinborgarhússins bréf til bæjaryfirvalda og þar sagði að nú stefndi í fjórða árið í þessu ástandi. „Ljóst er að Edinborgarhúsið mun ekki halda áfram starfsemi í óbreyttri mynd á komandi ári við áframhaldandi aðstæður.“

Þar segir að gildandi samningur Edinborgarhússins við Ísafjarðarbæ um rekstur menningarhússins, frá árinu 2006 sé genginn sér til húðar. Til að Edinborgarhúsið geti uppfyllt samninginn þurfi að finna leiðir til að hægt sé að reka húsið sem menningarhús. Finnist slíkar leiðir ekki á næstunni er ljóst að enn frekari samdráttur verður í starfsemi Edinborgarhússins.

Minnt er á að undanfarin ár hafi stjórn hússins reynt að reka málið gagnvart bæjaryfirvöldum með skýrslugerðum, rekstraráætlunum, rekstrarsviðsmyndum og fundum. „Markmiðið með þessari upplýsingagjöf hefur ávallt verið það að veita bæjaryfirvöldum tæki og tól til að reka málið gagnvart ríkinu. Lokatakmarkið hefur síðan verið það að ríki, bær og félagið Edinborgarhúsið komist að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig megi tryggja rekstur menningarhúss Vestfjarða til framtíðar.“

Ekkert kemur fram um þátt ríkisins í framtíðarrekstri Edinborgarhússins en bæjarráðið hefur ákveðið að koma að ráðningu starfsmanns.

DEILA