Vestri: góð frammistaða í sumar

Knattspyrnulið Vestra í karlaflokki lauk keppnistímabilinu á laugardaginn með leik í undanúrslitum bikarkeppni KSÍ.

Leikið var gegn Íslandsmeisturum Víkings frá Reykjavík á aðavelli KR í Vesturbænum þar sem völlurinn á Ísafirði var óleikfær vegna snjóa og síðan úrkomu. Íslandsmeistararnir höfðu sigur 3:0 eftir að hafa leitt 1:0 í hálfleik.

Fyrsta mark Víkings var umdeilt þar sem Vestramenn töldu að þeir hefðu átt að fá vítaspyrnu eftir brot á Pétri Bjarnasyni inn í vítateig Víkings. Ekkert var dæmt og skömmu síðar skoruðu Víkingar.

Vestramenn geta verið ánægðir með árangurinn í sumar. Í Lengjudeildinni varð liðið i 5. sæti af 12 og sýndi góða leiki. Það er stutt í það að Vestri verði í toppbaráttunni í deildinni um sæti í úrvalsdeildinni.

Þá stóð liðið sig vel í bikarkeppninni og sló m.a. út Íslandsmeistara Vals á leiðinni í undanúrslitin.

Meðfylgjandi myndir tók Geir A. Guðsteinsson.

Fjölskylda frá Súðavík sem fór suður til að horfa á leikinn.

DEILA