Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði um 18 í síðasta mánuði samkvæmt nýbirtum tölum frá Þjóðskrá Íslands og voru 7.220 manns búsettir í fjórðungnum um síðustu mánaðamót. Mest var fjölgunin í Ísafjarðarbæ, en þar fjölgaði um 16 manns. Í Súðavík fjölgaði um 4 og í Bolungavík um 3. Lítil breyting varð annars staðar nema í Strandabyggð, en þar fækkaði um 4 íbúa.
Frá 1. desember 2020 hefur fjölgað um 121 manns á Vestfjörðum. Mest hefur fjölgunin verið í Vesturbyggð en þar bættust 69 manns við íbúaskrána. Það gerir 6,5% fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði einnig verulega eða um 63 manns, sem er 1,7% fjölgun. Næst mest hlutfallsleg fjölgun frá 1. desember er í Súðavík. Fjölgunin er 13 manns sem er 6,4% fjölgun.