Fasteignir Ísafjarðarbæjar ehf hafa sent leigjendum 9 leiguíbúða í Fjarðarstræti 30 á Þingeyri bréf og tilkynnt þeim að ákveðið hafi verið að fækka leiguíbúðum félagsins. Leigjendum býðst að kaupa íbúðirnar og hafa 14 daga frá 4. október til þess að tilkynna um áhuga sinn til þess að kaupa.
Vilji leigjandi ekki kaupa verður íbúðin auglýst til sölu á almennum markaði með leigusamningnum. Það verður þá ákvörðun nýs eiganda hvort hann heldur áfram leigusamningnum.
Vilji leigjandi kaupa þarf hann að fjármagna a.m.k. 80% af kaupverðinu . Fasteignir Ísafjarðarbæjar bjóðast til að lána 10-20% af kaupverðinu til 10 ára með 3% verðtryggðum vöxtum.
Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er erfitt að finna aðra leiguíbúðir á Þingeyri. Þá er bent á að viðhaldi íbúðanna á Fjarðargötu 30 hafi lengi verið áfátt og að mygla hafi fundist í húsinu.
Í svari Ísafjarðarbæjar við fyrirspurn Bæjarins besta segir að staða hvers leigjanda verði metin áður en ákvörðun um beina sölu verður tekin og að FastÍs mun áfram eiga íbúðir ætlaðar fólki sem þarf aðstoð sveitarfélagsins.