Friðlandið í Vatnsfirði er alls um 20.000 ha. Um fjórir fimmtu hlutar þess eru grýtt og gróðurlítið hálendi en láglendið að mestu vaxið kjarri. Sumarfagurt og veðursælt er í Vatnsfirði og þaðan er tilvalið að skoða Vestfirði. Um eina og hálfa klukkustund tekur að Látrabjargi, í Selárdal og á Ísafjörð, hálfrar stundar akstur er að Dynjanda og einnar stundar sigling er með Baldri út í Flatey
Dýralíf í Vatnsfirði er nokkuð fjölbreytt, þótt fjöldi einstaklinga sé sjaldnast mikill. Ein tegund sker sig þó úr hvað það varðar. Þeir sem dveljast þar á lognkyrrum miðsumardegi mega búast við að mýið geri sér dælt við þá og er vissara að hafa flugnanet við hendina. Ekki má gleyma geitungunum sem þar hafa numið land. Þeir geta launað fyrir sig sé þeim misboðið. Um tuttugu tegundir fugla halda sig í friðlandinu að staðaldri. Mikið er af æðarfugli á firðinum og straumönd fram eftir sumri en miðsumars verður lómurinn einkennisfugl svæðisins, enda hávær. Örn og fálki eru oft á ferðinni en verpa sjaldan í friðlandinu. Nokkuð er um hagamýs, ref og mink en auðveldara er að koma auga á selina sem gjarnan flatmaga á skerjunum við Hörgsnesið. Lax gengur í Vatnsdalsá og silungur er í Vatnsdalsvatni.
Gróður í friðlandinu einkennist af náttúrulegum reynivið og birkiskóg sem breiðir úr sér frá flæðarmáli og langt uppá heiðar. Skógurinn ásamt víðáttumiklum leirum eru búsvæði fjölskrúðugs lífríkis. Á þessum slóðum er mikið blágresi, einir og burknar algengari en víðast hvar á Barðaströnd. Þá finnst mikið af lyngi, sérstaklega aðalbláberjalyngi. Á urðarflákum hálendisins mynda skófir og mosar skemmtilegt litskrúð.
Berggrunnur svæðisins tilheyrir tertíeru blágrýtismynduninni og er líklega tíu til þrettán milljón ára. Landslag er mótað af ísaldarjöklum, dalir eru jökulsorfnir og hvalbök á víð og dreif sýna skriðstefnur. Yfir firðinum að vestan gnæfa tindar Hornatánna rúmlega sjöhundruð metra yfir sjávaramál. Hornatær hafa líklega staðið lengi sem jökulsker í ísaldarjöklinum því hásléttan á svæðinu er yfirleitt um fimmhundruð metra yfir sjávarmáli. Af öðrum jökulminjum má nefna hrygginn sem skilur vatnið frá fjarðarbotninum. Hann er ekki jökulruðningur, eins og kann að virðast við fyrstu sýn, heldur berghaft sem jökullinn hefur ekki megnað að sverfa. Berggangar setja nokkurn svip á svæðið og í grennd við þá er jarðhiti, sem m.a. er nýttur til að hita sundlaug.
Saga svæðisins er löng og leiða má að því lyktum að í Vatnsfirði var gerð fyrsta tilraun til landnáms sem sögur fara af á Íslandi. Hrafna-Flóki hafði vetursetu í Vatnsfirði og gaf landinu nafn þegar hann fór í fyrstu fjallgönguna sem vitað er um hérlendis. Í Landnámu segir: „Vár var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum, því kölluðu þeir landit Ísland, sem það hefur síðan heitit.“ Heimamenn telja að hann hafi gengið á Lómfell sem er hæst nærliggjandi fjalla.
Í Hörgsnesi er Gíslahellir, blaut og óvistleg hola þar sem Gísli Súrsson á að hafa falist. Langibotn í Geirþjófsfirði, jörð Auðar konu Gísla, liggur að friðlandinu að norðvestan. Um fjörðinn hafa löngum legið alfaraleiðir og fornar vörður á víð og dreif um fjöllin vitna um löngu týndar götur. Brjánslækur var eitt af höfuðbólum Guðmundar Arasonar á Reykhólum. Á eyrinni innan við vatnið héldu Vestfirðingar þjóðhátíð í júlí 1974. Þar komu saman um tíu þúsund manns, eða mun fleiri en nú búa á Vestfjörðum.
Af vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða