Súðavík: uppfyllingu vegna kalkþörungaverksmiðju seinkar

Ákveðið hefur verið að seinka útboði á fyrirstöðugarði sem vera átti í september lítilsháttar. Eftir fund með Vegagerðinni var ákveðið að það færi fram í október.

Um er að ræða hafnarframkvæmdir vegna byggingar kalkþörungaverksmiðju á Langeyri.

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að útboði á stálþili verði frestað þar sem ekki er þörf fyrir það fyrr en á árinu 2022 og auk þess er verð á stáli hátt um þessar mundir.

Stefnt er að því að samkeyra uppdælingu landfyllingar innan til við Langeyri með framkvæmdum í Sundahöfn í Skutulsfirði, að því gefnu að þær hefjist á árinu 2022.

Miðað við áætlanir mun gerð fyrirstöðugarðs eiga sér stað á fyrstu mánuðum ársins 2022.

Fyrirstöðugarður og uppdæling á efni af hafsbotni til þess að útbúa landfyllingu eru áætluð um 38.000 m² og útbúnaður iðnaðarlóðar amk 32.000 m² undir fyrirhugaða verksmiðju Íslenska kalkþörungafélagsins.

Áætlað er að fullbúin verksmiðja vinni um 120.000 m³ af kalkþörungaseti úr Ísafjarðardjúpi á ári þegar hámarksafköst fást.

Áætlað er að um 30 störf +/- muni skapast við rekstur verksmiðjunnar og afleidd störf að auki. 

DEILA