Í síðustu könnun Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna fyrir komandi Alþingiskosningar eru umtalsverðar breytingar á fylgi flokkanna í kjördæmi frá síðustu könnunum.
Könnunin var gerð 16. – 29. ágúst. Úrtakið var 4.329 manns og svöruðu 2.306 eða 53%. Af þeim ætluðu 1.888 að kjósa og þar af voru 167 svör í Norðvesturkjördæmi. Ekki eru gefin upp vikmörk fyrir kjördæmaniðurbrotið.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi langmest fylgi í kjördæminu 27%. Næstir kæmu Framsókn og Viðreisn með 12% hvor flokkur. Miðflokkurinn og Samfylking fengju 10% hvor flokkur og Vinstri grænir 9%. Sósíalistaflokkurinn fengi 8% og Píratar 6%.
Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn 2 menn kjörna og Framsókn, Viðreisn, Miðflokkur og Samfylking einn hvern. Sjöunda þingsætið færi annað hvort til 3. manns á lista Sjálfstæðisflokksins eða efsta manns á lista Vinstri grænna en báðir eru með 9% atkvæða á bak við sig.
Jöfnunarsætið er ekki hægt að ráðstafa nema að reikna stöðuna í öllum kjördæmum landsins. Næstir því fá kjördæmasæti væri Sósíalistaflokkurinn með 8% og svo sá sem ekki fengi 7. kjördæmasætið að ofan.
Tíðindin í þessari könnun er að Viðreisn fengi þingsæti, en í fyrri könnunum hefur það verið fjarlægt og að Vinstri grænir eru við það að tapa þingsæti sínu, en þeir hafa verið nær því að bæta við sig öðrum þingmanni í fyrri könnunum. Þá er Framsókn aðeins með einn mann kjörinn en í flestum könnunum hefur flokkurinn verið með tvo. Loks er Sjálfstæðisflokkurinn við það að bæta við sig þriðja þingsætinu.
Í fyrri könnun Gallup í ágúst voru Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir með tvo þingmenn hvor og eitt þingsæti til Miðflokksins, Samfylkingar og Pírata.