Suðureyri: gangstéttarframkvæmdir fyrir 12,3 m.kr.

Bæjarráð ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að semja við Búaðstoð um gangstéttarframkvæmdir við sundlaugina og Grunnskólann á Suðureyri. Um er að ræða uppbyggingu gangstétta og gangstéttarkanta. Um er að ræða framkvæmd sem eykur öryggi skólabarna í og úr grunnskóla, sem og aðra afþreyingu s.s. sund og íþróttir, jafnframt er töluvert af annarri umferð af óvarinni umferð s.s. gangandi og hjólandi, um svæðið segir í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

Níu aðilum var gefinn kostur á að gera tilboð en aðeins Búaðstoð skilaði inn tilboði sem var 12,3 m.kr. Kostnaðaráætlun er 9,8 m.kr. Í bókun bæjarráðs segir að samið verði við Búaðstoð á grundvelli tilboðs þess.

DEILA