Stærsti kjötframleiðandi heims fer í laxeldi

Höfuðstövar JBS í norður Ástralíu. Mynd: Patrick Hamilton/AFP/Getty Images

Ástralska fyrirtækið JBS SA, sem er stærsti kjötframleiðandi heims, hefur keypt sig inn í laxeldisfyrirtækið Huon Aquaculture Group í Tasmaníu. Huon er næst stærsti eldisframleiðandi í Ástralíu með 35.000 tonna framleiðslu á ári af eldisfiski. JBS hyggst ljúka kaupum á öllu hlutum í Huon fyrir árslok og greiða fyrir það sem svarar nærri 40 milljarða króna.

Þetta kemur fram á fréttavef Bloomberg á föstudaginn.

Framkvæmdastjóri JBS, Gilberto Tomazoni, segir að ákvörðun hafi verið tekin um að hasla sér völl í fiskeldinu og gefur þær skýringar að fiskneysla í heiminum aukist hraðar en neysla á kjöti svo sem nautakjöti, svinakjöti og kjúklingi. Fiskneysla er talin heilsusamlegri en kjötneysla og að almenningur sé meðvitaður um það. Fiskmarkaðurinn sé gríðarstór og fiskeldi muni efla fyrirtækið.

Fiskeldi hefur þann kost að minna þarf af fóðri í því til að framleiða 1 kg af vöru en í kjötframleiðslu. Þannig þarf samkvæmt upplýsingum úr Marine Harvest Industry Handbook 2016 aðeins 1,1 kg af fóðri til þess að lax auki þyngd sína um 1 kg. Við kjúklingaframleiðslu þarf 2,2 kg og 3 kg í svínakjötsframleiðslu. Mest þarf af fóðri við nautakjötsframleiðslu, þar þarf 9,8 kg ef fóðrið er korn en 4,2 kg ef það er gras.

DEILA