Fyrirhugað er að Siglunesvegi 611 verði lokað fyrir umferð. Vegagerðin hefur sagt sig frá veghaldinu og hefur fellt veginn af vegaskrá. Málið var tekið til umræðu í skipulags- og umhverfisráði Vesturbyggðar.
Ráðið harmar ákvörðun Vegagerðarinnar um að fella Siglunesveg nr.611 af vegaskrá og leggur til við bæjarráð Vesturbyggðar að beiðni verði send til Vegagerðarinnar um að Siglunesvegur verði aftur flokkaður sem héraðsvegur eða landsvegur, en á svæðinu er ýmiss atvinnustarfsemi svo sem heyskapur, skógrækt og aðgengi að vinsælum útivistarsvæðum og gönguleiðum.
Í ársbyrjun 2019 Vegagerðin hætti þjónustu við Siglunesveg.
Við veginn eru 5 lögbýli og á fjórum þeirra nytja bændur tún sem nýta afraksturinn innar á Barðaströnd ásamt skógrækt. Einnig eru við veginn skemma sem nýtt er af bændum ásamt 4 sumarbústöðum og einu lögheimili.
Siglunesvegur 611 er vestan Kleifaheiðar af Barðastrandarvegi við Haukabergsá um Holt og Hreggsstaði að Siglunesi.