Sæunnarsundið næsta laugardag

Eftir mikið japl, jaml og fuður var tekin ákvörðun um að láta ekki deigan síga, halda Sæunnarsundi til streitu og næstkomandi laugardag mun hópur fólks enn ný sýna fram að geta synt eins langt og kýr.

Sæunn var eins og flestir vita, kýr í Önundarfirði sem færa átti til slátrunar á Flateyri, þetta var í október 1987. Sæunn, sem reyndar hét þá Harpa, var ekki á því að enda líf sitt á þessum degi og gerði sér lítið fyrir og slapp, stökk yfir fiskikör á bryggjukantinum og út í ískaldan haustsjóinn, hún synti síðan þvert yfir fjörðinn og fékk pólitískt hæli hjá þeim Siggu og Steina í dal, þar sem hún lifði í fjöldamörg ár eftir þetta. Á sjómannadag eftir sundið fræga ól hún svo kálf, kvígu sem nefnd var Hafdís. Um sögu Sæunnar hefur Eyþór Jóvinsson ritað fallega myndskreytta barnabók og í ágúst 2018 var fyrst efnt til Sæunnarsunds. Þá reyndust ellefu hetjur geta synt eins langt og kýr og tæplega tveir tugir ári seinna eða 2019. Á því arma ári 2020 voru rúmlega 40 ofurhugar skráðir til leiks þegar tekin var ákvörðun um að aflýsa viðburðinum vegna Covid19 faraldurs.

Vegna faraldursins hafa verið gerðar nokkrar breytingar á skipulagi sundsins, ekki verður synt í klauffar Sæunnar, frá Flateyri í Valþjófsdal, heldur öfugt, lagt verður af stað í fjörunni þar sem Sæunn gekk á land og var heygð þegar hennar stund upp rann, og synt til Flateyrar. Þetta kemur í veg fyrir þétt samskipti sem verða að vera þegar ofurhugarnir eru hitaðir upp í heitum körum á áfangastað. Hátíðarkvöldverður verður ekki heldur viðurkenningarhátíð á miðjum degi í Holti þar sem hægt er að viðhalda lögbundnum sóttvörnum.

 

Aðstoðar er þörf

Það þarf margar hendur til að geta látið svona verkefni ganga og að sögn aðstandenda er óskað eftir aðstoð, til dæmis er aldrei of mikið af kajakræðurum. Eins þarf skutlbíla til að koma fólki yfir fjörðin, eftirlit í landi og móttökufólk við Flateyri. Hjálpsamir geta haft samband við Ívar í síma 859 2010 eða Bryndísi í síma 896 9838 eða senda póst á saeunnarsund@gmail.com

Þessa má líka geta að enn er opið fyrir skráningu í sundið og eru Vestfirðingar hvattir til að sýna hvað þeir geta.