Sæunnarsundi lokið með glæsibrag

Það voru 28 hetjur sem syntu af stað í fjörunni í Valþjófsdal á laugardaginn og stefnan tekin á Flateyri. Í firðinum lónuðu fjöldi hjálparbáta, sumir knúnir vélarafli, aðrir handafli og veðrið var framar öllum vonum miðað við daginn áður, 4 – 6 metrar og öðru hvoru gægðist sólin milli skýja.

Það er dagsformið sem skiptir mestu máli í svona verkefni og nokkrir fengu aðstoð báta, enda er tilgangur þeirra að fiska þá upp sem ekki komast alla leið. Það voru 23 sem kröfluðu sig á land í stórgrýtinu við kambinn á Flateyri og hlutu sumar tær af því tjón en að öðru leyti tókst dagurinn með ágætum og þátttakendur sem og heimamenn og hjálparkokkar sáttir með afrekin.

Það var Aðalsteinn Friðriksson sem fyrstur gekk á land á Flateyri en hann var 50 mínútur að synda yfir fjörðinn, jafnlengi og Hólmfríður Bóasdóttir var árið 2019 þegar síðast var synt. Sundhetjurnar voru svo að týnast inn næstu tvo klukkutímana.

Myndir: aðsendar.