FURA

Furur (fræðiheiti: Pinus) kallast ættkvísl sígrænna barrtrjáa af þallarætt (Pinaceae). Misjafnt er eftir höfundum hversu margar tegundir eru taldar til ættkvíslarinnar en þær eru á bilinu frá 105 til 125.

Furutré eru upprunnin á norðurhveli jarðar en hafa verið ræktuð um allan heim og eru meðal mikilvægustu nytjatrjáa. Þær eru aðlagaðar misjöfnu loftslagi og finnast m.a. á köldustu stöðum í norðanverðri Síberíu og Kanada, í tempruðum regnskógum, gresjum og eyðimörkum í vestanverðri N-Ameríku, við Miðjarðarhaf, í heittempruðu loftslagi í suðaustanverðum Bandaríkjunum og í Kína, í hitabeltisloftslagi í Mið-Ameríku, Karíbahafi og Víetnam og víða hátt til fjalla.

Þetta eru sígræn tré með þykkan börk og innihalda mikið af trjákvoðu. Nálarnar eru langar og vaxa í knippum umhverfis sprota.

Furur flokkast í tveggja og fimm nála furur eftir því hversu margar nálar eru í knippi, en sumar tveggja nála furur eru með þrjár eða jafnvel fjórar nálar í knippi og sumar fimm nála furur eru með fjórar, þrjár eða aðeins eina nál í knippi.

Af vefsíðunni skógur.is