Djúpið: dræm veiði í laxveiðiánum

Laxateljarinn í Langadalsá. Myndin tekin 27. júní sl. Mynd: Langadalsá.

Frekar dræm laxveiði hefur verið í Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi það sem af er veiðitímabilinu í sumar. Því lýkur 15. september. Veiðin virðist ætla að vera svipuð og í fyrra en þá var hún langt undir meðaltali áranna 1974-2020.

Landssamband veiðifélaga birtir reglulega tölur yfir veiðina og þann 28. júlí höfðu 24 laxar veiðst í Langadalsá. Ekki er getið um Hvannadalsá í tölum Landssambandsins en í fyrra veiddust 107 laxar í Langadalsá og 18 laxar í Hvannadalsá.

Í Laugardalsá höfðu á sama tíma veiðst 44 laxar en í fyrra varð veiðin 112 laxar.

Athyglisvert er að þegar tölurnar birtist 28. júlí var gefið upp að veiðst hefðu 18 laxar í Laugardalsá en í gær var búið að uppfæra tölurnar og kemur fram að 44 laxar hafi veiðst.

Hafrannsóknarstofnun segir í skýrslu frá 2019 að Laugardalsá og Langadalsá séu aflasælustu veiðiár á Vestfjörðum. En þær eru báðar meðal neðstu laxveiðiáa í yfirliti Landssambands veiðifélaga frá 28. júlí sl.

Norðurá í Borgarfirði er aflahæst laxveiðiáa hingað til í sumar með 911 laxa. Næst koma Eystri – Rangárnar með 864 laxa og Urriðafoss í Þjórsá er í þri’ja sæti með 787 laxa.

Laugardalá er í 44. sæti á þessum lista og Langadalsá í 48. sæti.

DEILA