Vegagerðin greiðir eigendum Grafar 24 m.kr.

Kort af svæðinu sem nýi vegurinn liggur um.

Samningur Vegagerðarinnar við eigendur jarðarinnar Gröf í Þorskafirði er frágenginn og undirritaður. Vegagerðin kaupir land undir veginn samtals 138.507 fermetra sem verður skipt út úr jörðinni. Spildan er miðuð við 40 metra breidd, 20 metra til hvorrar handar frá miðlínu vegarins, sem á að leggja, á um það bil 3.470 metra vegalengd.

Þá verður Vegagerðinni heimilað að taka 55 rúmmetra af efni úr skeringum utan vegarins ef nauðsyn krefur. Landeigandi heimilar verktaka að vera með vinnubúðir á jörðinni meðan á verkinu stendur.

Umsamið er að Vegagerðin greiðir 24 m.kr. í bætur fyrir land og önnur réttindi. Þar af eru 7 m.kr fyrir land undir veginn og 11 m.kr. vegna landskiptingar sem leiða af landinu sem Vegagerðin fær. Fyrir ónæði á framkvæmdatíma eru greiddar 2,9 m.kr. Greiddar eru 1,1 m.kr. fyrir vel gróið land/kjarr 113.271 fermetra og 1 m.kr. fyrir 23.600 fermetra af ræktuðum túnum. Loks er 1 m.kr. greidd í leigu fyrir aðstöðu.

Vegagerðin mum koma upp gróðri á holtinu til að draga úr ásýnd vegar frá sumarhúsi í Gröf. Útfærsla gróðursetningar verður ákveðinn í samráði við landeigendur og Skógræktina. Þá eru ákvæði um frágang svæðisins, girðingar og búfjárgöng. Gerð verður ný heimreið að bústaðnum frá nýja veginum.

Við undirskrift samnings voru greiddar 16.8 m.kr. og 7,2 m.kr. verða greiddar við þinglýsingu.

DEILA