Strandsvæðisskipulag: gerð athugasemd við neikvæða afstöðu Skipulagsstofnunar til fiskeldis

Svæðið sem strandsvæðaskipulagið nær til. Mynd: Skipulagsstofnun.

Svæðisráð um gerð strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði vinnur að gerð skipulagsins og ráðgerir að ljúka því á næsta ári. Í skipulaginu verður ákveðin nýting hafsvæðisins undan ströndinni. Skipulagssvæðið byggir meðal annars á afmörkun hafsvæða þar sem eldi laxfiska í sjó á Vestfjörðum er heimilt, sem þýðir að skipulagið fjallar töluvert um fiskeldi í sjó og er meðal annars hægt að loka fyrir eldi á ákveðnum svæðum, svo sem Jökulfjörðum.

Utan netlaga, ca 115 m frá fjöruborði, er hafsvæðið á forræði ríkisins og er svæðisráðið skipað af Umhverfisráðherra. Svæðisráðið sendir honum tillögu sína að skipulaginu og ráðherrann afgreiðir hana. Á vinnslustigi er haft samráð við sveitarfélög, opinberar stofnanir og hagsmunaaðila.

Í svæðisráði sitja 8 manns, fulltrúar fjögurra ráðherra, 3 fulltrúar sveitarfélaganna á Vestfjörðum og einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður skipa’ur af umhverfisráðherra er Stefán Gíslason, fyrrverandi sveitarstjóri á Hólmavík.

Skipulagsstofnun  vinnur að gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum í umboði svæðisráðs.

Á fundi svæðisráðs voru lagðar fram þrjár sviðsmyndir um þróun nýtingar og verndar á skipulagssvæðinu sem Skipulagsstofnun vann að með VSÓ Ráðgjöf.

Sviðsmyndirnar þrjár voru:
a) Sporðaköst um allan fjörð, þar sem sjókvíaeldi og orkuvinnsla á hafi eru í forgrunni.
b) Lífið er saltfiskur, þar sem sjávarútvegur, efnistaka og aðrar nytjar eru í forgrunni.
c) Ströndin handan við heiminn, þar sem náttúruvernd og náttúrutengd ferðaþjónusta eru
ráðandi.

Skipulagsstofnun: ágengt fiskeldi

Arnór Snæbjörnsson fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði athugasemd við orðalag í kynningunni og taldi að óheppilegt væri að nota orðalagið ágengt fiskeldi enda byggist fiskeldisstarfsemi á lögum og stefnu stjórnvalda og sé almennt í góðri sátt við náttúruna.

Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði tók fram að sér fyndist skorta í sviðsmyndirnar tillit til núverandi ástands og nefndi þar ýmsa starfsemi sem færi fram í góðri sátt við fiskeldi, t.d. efnistöku og æðavarp. Þá færu fiskveiðar og fiskeldi víða ágætlega saman, enda veiddist vel kringum kvíarnar.

Ásta Þorleifsdóttir fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra bar í bætifláka fyrir Skipulagsstofnun og sagði að gagnlegt væri að setja fram öfgar í sviðsmyndunum enda vekti það hugmyndir og umræður.

Aðalsteinn Óskarsson fulltrúi sambands íslenskra sveitarfélaga taldi að rýna hefði mátt orðalag sviðsmyndanna betur og hafa samráð við svæðisráðið við undirbúning þeirra.

Ekkert kemur fram í fundargerð um afstöðu Erlu Sigríðar Gestsdóttur, fulltrúa ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Næsta skref er að Skipulagsstofnun vann tillögu að nýtingarflokkum fyrir strandsvæðisskipulagið. Vinnskjal hefur verið sent til fulltrúa í ráðinu og það var rætt á fundi þess 28. júní. Vinnuskjalið hefur ekki verið birt og ekki hafa fengist fréttir af afdrifum þess í svæðisráðinu.

DEILA