Merkir Íslendingar – Eiríkur J. Eiríksson

Merkir Íslendingar – Eiríkur J. Eiríksson

Eiríkur Júlíus Eiríksson, prestur, kennari og skólastjóri að Núpi í Dýrafirði og seinna þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fæddist  22. júlí 1911 að Ekru í Vestmannaeyjum en fluttist fárra vikna gamall á Eyrarbakka.

Faðir hans var Eiríkur Magnússon, trésmiður frá Ölfusi. Hann fluttist til Kaliforníu í Bandaríkjunum, um það leyti sem Eiríkur fæddist, og sneri aldrei aftur. Eiríkur ólst upp hjá einstæðri móður sinni, Hildi Guðmundsdóttur frá Iðu í Biskupstungum, og móðurforeldrum sínum, Guðmundi Guðmundssyni og Jónínu Jónsdóttur á Eyrarbakka.

Eiríkur var í barnaskóla á Eyrarbakka og fór svo í MR og varð stúdent þaðan 1932. Hann tók kennarapróf 1934 og guðfræðipróf frá HÍ 1935. Hann fór svo í framhaldsnám til Basel í Sviss.

Eiríkur varð kennari á Núpi í Dýrafirði 1935, tók sér árshlé meðan hann kynnti sér skólamál á Norðurlöndunum 1936-1937, fór svo aftur að kenna á Núpi og varð skólastjóri þar 1942 til ársins 1960. Á sama tíma var hann sóknarprestur á Núpi.

Árið 1960 varð hann prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og gegndi þeim stöðum til ársins 1981. Hann hætti þó ekki að sinna skólamálum því hann hafði mikil afskipti af Ljósafossskóla og var m.a. prófdómari þar og sat í skólanefnd.

Eiríkur var einn af forustumönnum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sat í stjórn UMFÍ frá 1936 og var formaður UMFÍ í um 30 ár. Landsmótin voru honum mikið hjartans mál og átti hann þátt í því að endurvekja þau með Landsmótinu í Haukadal 1940. Hann var ritstjóri Skinfaxa, málgagns UMFÍ, um árabil, skrifaði margar greinar í blöð og tímarit og var mikill ræðuskörungur.

Kona Eiríks var Dýrfirðingurinn Sigríður Kristín Jónsdóttir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson, bóndi á Gemlufalli í Dýrafirði og kona hans, Ágústa Guðmundsdóttir.

Kristín gekk í Núpsskóla þar sem hún kynntist arftaka sr. Sigtryggs Guðlaugssonar, sr. Eiríki Júlíusi Eiríkssyni frá Eyrarbakka, sem síðar varð einnig skólastjóri á Núpi um 18 ára skeið. Kristín og sr. Eiríkur giftust þann 6. nóv. 1938.

Húsmæðranám stundaði Kristín í Kvennaskólanum í Reykjavík en búskap sinn hófu þau í nýju prestshúsi á Núpi 1940 og þá fæddist fyrsti sonurinn, Aðalsteinn, sem skrifað hefur veglaga bók um sögu Núpsskóla og kom út árið 2017.  Átta börn til viðbótar eignuðust þau á Núpi, Guðmund, f. 1943, Jón, f. 1944, Hildur, f. 1947, Ágústa, f. 1948, Jónína, f. 1952, Magnús f. 1953, Guðmundur, f. 1954 og Ásmundur, f. 1959.

Á afmælisdegi Kristínar 1984 gáfu þau hjónin Héraðs- og bæjarbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt, mikið að vöxtum, ákveðið tákn ævistarfs þeirra og hugsjóna.

Eiríkur lést í Félagsheimilinu Borg í Grímsnesi 11. janúar 1987 og hafði þá nýlokið afmælisræðu yfir vini sínum.


Hjónin sr. Eiríkur J. Eiríksson og Sigríður Kristín Jónsdóttir hvíla í kirkjugarðinum á Eyrarbakka.

 Hjónin Eiríkur J. Eiríksson og Kristín Jónsdóttir.

.


Sr. Eiríkur J. Eríksson.
.
Að Núpi í Dýrafirði um 1950.
.
Núpur í Dýrafirði.. .
Skráð af Menningar-Bakki. 
DEILA