Framkvæmdasýsla ríkisins hefur tekið saman skýrslu um næsta áfanga í stækkun hjúkrunarheimilisins Eyri í Skutulsfirði. Um er að ræða frumathugun fyrir fjórða áfanga húsnæðisins, sem er 10 rýma stækkun.
Eyri, 30 rýma hjúkrunarheimili á Ísafirði var formlega tekið í notkun þann 07. janúar 2016 en samkvæmt þarfagreingu frá 2011 var talið að þörfin yrði 38 rými í Ísafjarðarbæ árið 2021.
Eyri hjúkrunarheimili var byggt eftir svokallaðri „leiguleið“ þar sem sveitarfélagið byggði húsnæðið í eigin reikning og leigði ríkinu en heimilið var síðan skv. samkomulagi rekið af sveitarfélaginu. Hjúkrunarheimilið er viðbygging við sjúkrahús Vestfjarða, alls 2.300 fermetrar. Ísafjarðarbær hefur óskað eftir því að ríkið yfirtaki hjúkrunarheimilið og skuldirnar sem því fylgja en þær eru á annað milljarð króna. Það er því ekki hljómgrunnur fyrir því að stækkunin verði byggð eftir sama módeli heldur miðað við að ríkið standi að framkvæmdinni.
Ríkið mun stækka
Fram kemur í skýrslunni að Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að hafist verði handa við þessa stækkun og að byggt verði við núverandi húsnæði 10 hjúkrunarrými í hefðbundinni opinberri framkvæmd með samvinnu ríkis og sveitarfélagsins.
Ný álma hjúkrunarheimilisins verður með 10 eins manns herbergjum og verður staðsett á lóð núverandi hjúkrunarheimilis og mun tengjast því með gangi með svipuðum hætti og hinar álmurnar inn á miðrýmið þar sem félagsstarf, iðjuþjálfunin og önnur þjónusta er veitt.
Samkvæmt viðmiðum velferðaráðuneytisins þarf húsnæðið fyrir 10 hjúkrunarrými að vera um 650 fermetrar brúttó.
Aðeins einn valkostur kemur til greina til að ná markmiðum verkefnisins en það er viðbygging með 10 rýmum, sem yrði lokið 2023.
Kostnaður við stækkunina er áætlaður 554 m.kr. auk 43 m.kr. vegna áætlunargerðar. Sveitarfélagið greiðir 15% af kostnaðinum. Kostnaður við síðasta áfanga, 30 rýma stækkunina var 1,6 milljarðar króna.
Bæjarráðið vísaði málinu til kynningar í skipulags- og mannvirkjanefnd, umhverfis- og framkvæmdanefnd og velferðarnefnd.