Styrkvilyrði hafa verið veitt í Árneshreppi til verkefna ársins 2021. Alls barst 21 umsókn og var samþykkt að veita 16 verkefnum styrkvilyrði, alls að upphæð 8.000.000 kr.
Það er verkefnið Áfram Árneshreppur! sem er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Vestfjarðastofu og Árneshrepps undir merkjum Brothættra byggða sem veitir styrkina. Verkefnið hófst í ársbyrjun 2018 og mun standa til ársloka 2022.
Styrkþegar ársins 2021 eru sem hér segir:
Stapi ehf hlaut styrkvilyrði til undirbúningsvinnu við fræðasetur í Finnbogastaðaskóla að upphæð 500.000 kr. Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, er forsvarsmaður Stapa og hefur unnið mikið rannsóknarstarf um jarðfræði Árneshrepps.
Hótel Djúpavík hlaut framhaldsstyrk að upphæð 800.000 kr. til undirbúnings Baskaseturs í gömlu síldarverksmiðjubyggingunum í Djúpavík. Héðinn Birnir Ásbjörnsson er forsvarsmaður verkefnisins, en það er m.a. unnið í samstarfi við Baskavinafélagið. Þórarinn Blöndal, myndlistarmaður, hefur verið ráðinn til að hanna sýningu um sögu Baska hér við land og Spánverjavígin illræmdu.
Jón Unnar Gunnsteinsson og hópur honum tengdur hlaut styrkvilyrði að upphæð 750.000 kr. til efniskaupa vegna þakviðgerðar á gamla sláturhúsinu í Norðurfirði, en þar stendur til að byggja upp frekari starfsemi í ferðaþjónustu. Verkefnið mun bæta ásýnd Norðurfjarðar verulega þegar nýtt þakefni hefur verið sett á bygginguna.
Margrét Ólöf Eggertsdóttir hlaut 330.000 kr. styrk til að endurnýja hreinlætisaðstöðu í Ófeigsfirði. Verkefnið mun bæta aðstöðu fyrir ferðamenn.
Kristjana María Svarfdal Ásbjörnsdóttir hlaut 400.000 kr. framhaldsstyrk til uppbyggingar á jógasetri á gamla renniverkstæðinu í síldarverksmiðjubyggingunum í Djúpavík.
Íslenski alpaklúbburinn hlaut 400.000 kr styrkvilyrði til að bæta aðstöðu til klettaklifurs í Norðurfirði, fjölga leiðum og bæta öryggismál. Norðurfjörður þykir einn besti staður á landinu til klettaklifurs.
UMF Leifur heppni hlaut tvö styrkvilyrði, annarsvegar 300.000 kr. til áframhaldandi viðgerða á Krossneslaug og hins vegar 300.000 kr. til að gera söguskilti sem verða utan á húsinu við Krossneslaug og rekja sögu laugarinnar.
Hótel Djúpavík hlaut 470.000 kr. styrkvilyrði til að koma af stað kajakleigu í Djúpavík. Magnús Karl Pétursson er forsvarsmaður verkefnisins, en styrkveitingin er háð því að öll öryggismál verði í lagi og tilskilin leyfi séu fyrir hendi.
Urðartindur ehf hlaut 400.000 kr. styrkvilyrði til að koma upp rafmagnstengingum fyrir ferðafólk á tjaldstæðinu í Norðurfirði. Verkefnið er talið munu efla ferðamennsku á svæðinu.
Háireki ehf hlaut 800.000 kr. styrkvilyrði til að koma upp smávirkjun í Húsá í Ófeigsfirði. Verkefnið er talið mjög umhverfisvænt þar sem ekki þarf lengur að keyra díselrafstöðvar til orkuframleiðslu. Verkefnið er talið styrkja atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu í Ófeigsfirði. Guðmundur Pétursson er forsvarsmaður.
Egill Steinar Kristjánsson hlaut hæsta styrkinn að þessu sinni, 1.000.000 kr. Styrkvilyrðið er til tækjakaupa. Verkefnið styður við heilsársbúsetu og uppbyggingu í landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi.
Thomas Elguezabal hlaut styrkvilyrði upp á 750.000 kr. til að undirbúa sýndarveruleikaupplifun af Árneshreppi. Verkefnið opnar fyrir ýmsa möguleika í kynningu á náttúru Árneshrepps og styður við ferðamennsku á svæðinu.
Linda Guðmundsdóttir og Hilmar Vilberg Gylfason hlutu 250.000 kr. styrkvilyrði til að taka upp frumsamið lag um Árneshrepp sem nefnist Víkursveit, en það mun vera fornt heiti á svæðinu og vísar til Trékyllisvíkur. Höfundar og flytjendur eru Linda Guðmundsdóttir og Hilmar Vilberg Gylfason.