Verkefnastjórn verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar hefur óskað eftir fundi við bæjarráð Ísafjarðarbæjar til að ræða stöðu og mögulega framlengingu verkefnisins út árið 2022. Fundurinn verður á næstunni.
Á íbúafundi á Þingeyri þann 7. júní sl. kom fram eindregin ósk íbúanna um að falast eftir því að verkefnið yrði
framlengt um eitt ár þ.e. út árið 2022. Það kæmi þá í hlut Ísafjarðarbæjar að sækja um slíka framlengingu
þar sem sveitarfélagið er ábyrgt fyrir verkefninu, sem upphaflegur umsækjandi og mikilvægur samstarfsaðili.
Öll vötn til Dýrafjarðar er byggðaþróunarverkefni á Þingeyri sem rekið er undir merkjum „Brothættra byggða“ og hefur það meginmarkmið að stöðva viðvarandi fólksfækkun.
Brothættar byggðir er ein af aðgerðum Byggðaáætlunar 2014-2017 og er sértækt verkfæri Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. Verkefnið er ætlað byggðarlögum sem glímt hafa við viðvarandi fólksfækkun, fækkun atvinnutækifæra og það að atvinnulíf og þjónusta hafa veikst. Verkefnið er samstarfsverkefni heimamanna, Ísafjarðarbæjar, Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu og er verkefnisstjórn skipuð fulltrúum þessara aðila.
Verkefnið er unnið í fjórum áföngum, undirbúningi, stefnumótun og áætlanagerð, framkvæmd og lok. Nú er unnið að því að ljúka síðasta áfanga. Verkefnið er til 3ja ára með möguleika á fjórða árinu ef á þarf að halda.
Verkefninu hefur fylgt fjármagn sem nýtt hefur verið til úthlutunar styrkja til ýmissa samfélagsverkefna ásamt verkefna sem stuðla að atvinnuuppbyggingu. Úthlutun fer fram einu sinni á ári.
Verkefnisstjóri er Agnes Arnardóttir.