Í mínum huga er það morgunljóst að til þess að uppbygging á Vestfjörðum geti átt sér stað þurfa samgöngur um héraðið að vera í góðu lagi.
Ef að efla á atvinnulífið og vöruframleiðslu hvers konar þá þarf góða vegi um alla Vestfirði sem duga jafnt fyrir þungaflutninga og almenna umferð.
Gangnagerð má ekki stoppa með tilkomu Dýrafjarðargangna heldur þarf að halda áfram í þeim efnum. Margir sinna vinnu í nágrannabyggðarlögum þar sem að fjallvegir á milli eru oft illfærir og ófærir á vetrum en göng gætu breytt miklu þar um.
Ef að slys eða náttúruhamfarir eiga sér stað þá þurfa vegir að vera greiðfærir og öruggir svo að sjúkrabílar, björgunarbílar, slökkviliðsbílar og önnur farartæki komist leiðar sinnar á sem stystum tíma.
Til að efla ferðamannaiðnaðinn og laða ferðalanga til Vestfjarða þá skipta góðir vegir miklu máli. Háir fjallvegir og illfærir hafa í gegnum tíðina fælt fólk frá því að fara syðri leiðina og góður hringvegur um Vestfirði með fleiri göngum gæti hjálpað til að laða að ferðamenn allan ársins hring.
Ég tel ekki að vegur um Teigskóg sé til vansa. Ég tel að hann skemmi hvorki dýralíf né náttúruna. Með aukinni tilkomu rafbíla minnkar líka mengunin. Þegar lagður var vegur yfir Gilsfjörð þá voru andstæðingar þeirra framkvæmda vissir um að vegurinn myndi eyðileggja lífríki svæðisins en annað hefur komið á daginn og dýralíf þar blómstrar sem aldrei fyrr svo af hverju ætti ekki það sama að eiga við um veg um Teigskóg?
Til að afskekkt svæði haldist í byggð allt árið þarf að halda vegum þangað greiðfærum. Þar er ég ekki endilega að ætlast til að sé malbikað heldur að malarvegirnir séu það góðir að fært sé á fólksbílum og að hægt sé að ferðast þar um án þess að eiga á hættu að grjóthnullungar rekist uppundir og valdi skemmdum. Það er ekkert launungarmál að þarna er ég sérstaklega með Ingjaldssand í huga þar sem að einn íbúi býr allan ársins hring. Þar eru hinsvegar bæir eins og Hraun, Ástún og Brekka þar sem að fólk hirðir vel um ættaróðölin sín og sækir oft á bernskuslóðir. Bær minna forfeðra, Álfadalur, hefur verið jafnaður við jörðu. Ingjaldssandur er náttúruperla sem er skemmtilegt fyrir ferðafólk að skoða og þess virði að halda í byggð. Kirkjan þar með þeim fallegri á landinu á sínu sérstaka bæjarstæði.
Ykkar einlæg Jónína Björg Magnúsdóttir/Nína
Undirrituð er í framboði í 2.sæti fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi til Alþingiskosninga 2021.