Þjóðgarður: viljayfirlýsing fæst ekki birt

Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Viljayfirlýsing milli Umhverfisstofnunar, Umhverfisráðuneytisins og sveitarfélaganna Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar varðandi stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum fæst ekki birt. Yfirlýsingin var rædd á opnum fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á fimmtudaginn í síðustu viku og samþykkt en var ekki birt. Því er uppi sú einkennilega staða að ekki er hægt að finna í fundargerð bæjarstjórnar hvert innihald samþykktar bæjarstjórnar er, aðeins kemur fram að yfirlýsingin hafi verið samþykkt.

Birgir Gunnarsson bæjarstjóri vill ekki afhenda yfirlýsinguna en fram kemur í svari Ísafjarðarbæjar við fyrirspurn Bæjarins besta að hún snúist um „þau áform sem snúa að uppbyggingu í tengslum við stofnun þjóðgarðs. Í henni kemur fram vilji ríkisvaldsins til að byggja upp gestastofur, uppbygging á aðstöðu, göngustígum, merkingum og auk þess hvers er að vænta varðandi starfsmannahald í þjóðgarðinum.“ Birgir segir að yfirlýsingin sé vinnuskjal ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar og vísar á þau til að fá afrit.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að yfirlýsingin hafi verið send til bæjarfulltrúa og verði rædd á fundi bæjarráðs á morgun. Hún vísar því einnig til Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins að svara til um afhendingu yfirlýsingarinnar.

Freyja Pétursdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun vísar erindi um afhendingu viljayfirlýsingarinnar til Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Erindi hefur verið sent til ráðuneytisins er svar hefur ekki borist.

Breytingar á friðlýsingarskilmálum sveipaðar leynd

Fulltrúar Umhverfisstofnunar hittu bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar fyrir bæjarstjórnarfund á fimmtudaginn og þar voru ræddar breytingar á friðlýsingarskilmálum. Þær breytingar hafa ekki heldur fengist birtar. Bæjarstjóri Vesturbyggðar vísaði erindinu til Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins.

Freyja Pétursdóttir, sérfræðingur á Umhverfisstofnun segir að breytingarnar hafi ekki verið staðfestar ennþá af samstarfshópnum, en hópurinn mun hittast á fimmtudag og fara saman yfir viðbrögð við athugasemdunum sem bárust og mögulegum breytingum á skilmálum.

Hún segir hins vegar að Umhverfisstofnun hafi ekki sett neinar reglur um birtingu breytinganna [af hálfu sveitarfélaganna] , en um sé að ræða vinnuskjöl sem stofnunin mun ekki birta fyrr en þau hafa verið samþykkt af samstarfshópi og sveitarfélögum.

Niðurstaðan virðist því sú, hvað varðar breytingartillögur um friðlýsingarskilmálanna, að það sé ákvörðun sveitarfélaganna að viðhalda leynd yfir þeim. Beðið er svara Umhverfisráðuneytisins um það að fá drögin að viljayfirlýsingunni afhent.

DEILA