Hafið okkar

Okkur Vestfirðingum er blóð borið að stíga ölduna og sækja björgina í greipar hafsins. Forsenda byggðar á Vestfjörðum hefur ávallt hvílt á sjósókn og á því að nýta auðlindir hafsins til að byggja upp samfélagið. Ég minnist þess nú í aðdraganda Sjómannadags hvað þessi helgi var í minni barnæsku mikil hátíð og skemmtileg: Róðrakeppni, koddaslagur og sigling með Gylli þar sem nammi var útdeilt til okkar púkanna eins og enginn væri morgundagurinn. Þjóðhátíðardagurinn 17. júní komst ekki með tærnar þar sem Sjómannadagurinn hafði hælanna enda þar á ferð hin sanna þjóðhátíð Vestfirðinga.

Tímarnir breyttust. Áföll dundu yfir, flest manngerð. Afdrifaríkar breytingar á stjórn fiskveiða, niðurskurður í bolfiskveiðum sem og hraðar efnahagslegar og samfélagslegar sviptingar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar skákuðu mörgum sjávarþorpunum til hliðar án þess að þeim væri gefið tækifæri til að aðlagast og ná vopnum sínum á ný. Þetta er saga minnar kynslóðar. En henni er ekki lokið.

Þótt brotsjórinn hafi skolað mörgu til hélt kjölfestan. Áfram er róið og sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum hafa náð að byggja upp. Þau hafa endurnýjað skip, búnað og húsnæði, aðlagað vinnslulínur og sótt á nýja markaði erlendis. Hægt og bítandi hafa Vestfirðingar beislað nýjar auðlindir og nýtt önnur tækifæri með nýsköpun í iðnaði, þjónustu og fjölgun ferðamanna.  

Augljós viðsnúningur – áhrif fiskeldis

Tvær fréttir Bæjarins Besta í vikunni af breytingum á Vestfjörðum hafa sérstaklega vakið athygli mína. Annars vegar var sagt frá því að fasteignamat íbúða í Bolungarvík og Ísafjarðarbæ hækkar hvað mest á landinu eða um 30% í Bolungarvík og 24% í Ísafjarðarbæ. Hins vegar að hlutfallsleg fólksfjölgun í landinu hefur verið mest á Vestfjörðum á tímabilinu frá 1. desember 2020 til 1. júní 2021 eða 0,9%. Innan Vestfjarða er fjölgunin mest í Vesturbyggð eða 3,5%. Þetta eru afar sterkar vísbendingar um þá jákvæðu strauma sem nú má finna víða á Vestfjörðum. Skýringin er augljós. Fólk hefur trú á framtíðinni.

Sjósókn er hafin á ný mið. Bláir akrar við strendur Vestfjarða hafa verið nytjaðir og í því felast mikil sóknartækifæri fyrir Vestfirðinga og reyndar landsmenn alla. Ný störf hafa orðið til. Þetta eru fjölbreytt störf sem krefjast margvíslegrar þekkingar og reynslu af aðstæðum á Vestfjörðum, umhverfi og lífríki sjávar. Uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum er komin vel á veg, þrátt fyrir hindranir og enga meðgjöf frá ríkisvaldinu. Þessi þróun mun halda áfram ef rétt er á málum haldið. 

Vestfirðingar sæki fram

Reynsla Vestfirðinga af andvaraleysi stjórnvalda yfir þeim breytingum sem eiga sér stað og vinnubrögðum stjórnsýslunnar í leyfismálum sem og innviðauppbyggingu í samgöngu- og raforkumálum, segir mér að ekki er hægt að taka neinu sem gefnu. Áfram verður að berjast fyrir því að uppbygging fiskeldis og framþróun í sjávarútvegi á svæðinu verði á forsendum Vestfirðinga. Við þurfum að fá notið nálægðar við auðlindina og þannig skapað verðmæti sem landsmenn allir njóta góðs af og reist Vestfirði fyrir alvöru við að nýju. Þetta eru verkefni næsta kjörtímabils. Það skiptir máli hverjum verður falið að berjast fyrir framgangi þeirra í komandi Alþingiskosningum. Endurreisn byggða á Vestfjörðum er það sem er hér í húfi.

Það gleður mig að sjá að á Vestfjörðum er nú boðað til hátíðarhalda í tilefni sjómannadagsins. Veiruskrattinn og takmarkanir sem honum fylgja setja vissulega mark sitt á helgina en hefðinni er viðhaldið hvað sem bjátar á og það skiptir máli. Sjómennskan er það sem gerir Vestfirðingum kleift að sækja fram og fyrir það ber að þakka.

Til hamingju með daginn sjómenn og Vestfirðingar allir!

Teitur Björn Einarsson,

höfundur er Vestfirðingur og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.