Gerum þetta almennilega

Með hækkandi sól, fleiri bólusetningum og fjölgun ferðamanna lyftist brúnin á landanum og atvinnulífið tekur við sér. Það er einstaklega ánægjulegt að frétta af sífellt fleirum sem fá vinnu eftir langan tíma í atvinnuleit enda gerir það enginn að gamni sínu að draga fram lífið á bótum sem eru einungis hluti af lægstu launum. Það er óbærilegt fyrir fólk sem hefur leitað vinnu um langt skeið að sitja undir umræðu um að fólk nenni ekki að vinna. Í því felst mikil vanvirðing. Slík umræða kemur þó ekki fram af tilviljun einni saman heldur er hún liður í áróðri sem miðar að því að skerða bætur og neyða atvinnulaust fólk til að taka hvaða vinnu sem er, með öðrum orðum að svelta fólk út á óviðunandi vinnumarkað. Til eru atvinnurekendur sem telja sig hagnast á slíku kerfi og geta með þeim hætti fengið aðgang að ódýrara vinnuafli en ella. En þetta er mikil skammsýni. Ástæða þess að fólk tekur ekki vinnu geta verið margvíslegar, þar má nefna staðsetningu, vinnutíma, álag, öryggi og fjölskylduaðstæður. Það er engum greiði gerður með því að vanda ekki til ráðninga, hvorki atvinnuleitendum né atvinnurekendum. Enda kemur í ljós að almennilegir atvinnurekendur sem vanda til verka, bjóða störf við sæmileg skilyrði, eiga ekki í neinum vandræðum með að fá fólk til starfa. 

Í fyrra gaf ASÍ út áherslur um endurreisn ferðaþjónustunnar þar sem krafist var að tíminn væri nýttur þannig að hægt væri  að vanda til verka þegar ferðaþjónustan tæki við sér. Þar var hvatning til að auka menntun starfsfólks í greininni, uppræta brotastarfsemi í ferðaþjónustu og til að ná sátt um að greidd skuli sanngjörn laun fyrir störf í greininni. Enda á starfsemin að einkennast af fagmennsku og góðri upplifun þeirra sem sækja landið heim. Í stefnumótun stjórnvalda er hins vegar nánast aldrei vikið að starfsfólki í ferðaþjónustu og kallaði ASÍ eftir því að þar yrði gerð bragarbót á þegar í stað.

Því miður var tíminn ekki nýttur sem skyldi og það er full ástæða til að hafa áhyggjur af aukinni gerviverktöku, lægri launum og minni réttindum á ákveðnum sviðum. Skýrustu dæmin sjáum við í fordæmalausri framgöngu Play í tengslum við kjarasamninga og öðrum tilraunum til sniðgöngu á stéttarfélögum og þeim réttindum sem áunnist hafa síðustu áratugi með baráttu vinnandi fólks. Ef við endurreisum ekki ferðaþjónustuna almennilega, virðum leikreglur vinnumarkaðarins og sýnum virðingu þá töpum við öll til lengri tíma. Gerum þetta vel!

Góða helgi,
Drífa Snædal

forseti ASÍ