Fasteignamat viðmiðunareignar á Vestfjörðum er 28% af matinu á höfuðborgarsvæðinu

Byggðastofnun hefur birt skýrslu Þjóðskrár Íslands um reiknað fasteignamat viðmiðunareignar á ýmsum stöðum á landinu. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð.

Hæst 73,3 m.kr. og lægst 20,3 m.kr.

Fasteignamat samanstendur af húsmati og lóðarmati. Heildarfasteignamat viðmiðunareignar er að meðaltali 43,3 m.kr. á matssvæðunum 96 í greiningunni en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 73,3 m.kr. að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akranesi, á Akureyri og í Keflavík. Lægsta meðalfasteignamat landshluta í greiningunni er á Vestfjörðum 20,3 m.kr.

Þjóðskrá Íslands skiptir landinu í 96 matssvæði í 50 sveitarfélögum, þar af eru 27 matssvæði á höfuðborgarsvæðinu og 69 utan þess. Á Vestfjörðum eru 12 matssvæði.

Hæst fasteignamat á Ísafirði

Hæst er fasteignamatið fyrir viðmiðurnarhúsið á Ísafirði. Í eldri byggð, eins og það heitir í skýrslunni, er það 36 m.kr. og 32 m.kr. í nýrri byggð.

Næst Ísafirði kemur Patreksfjörður með mat upp á 21 m.kr., Þá Hólmavík 19 m.kr., Bíldudalur, Bolungavík og Tálknafjörður 18 m.kr, Hnífsdalur og Þingeyri 16 m.kr. ,Súðavík og Suðureyri 15 m.kr. og lægst er Flateyri með 14 m.kr.