Vilja leikskólastjóra á Þingeyri og Flateyri

Leikskólinn Grænigarður Flateyri. Mynd: Ísafjarðarbær.

Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar hefur fengið erindi frá Kristbjörgu Sunnu Reynisdóttur leik- og grunnskólastjóra á Flateyri og Ernu Höskuldsdóttur leik- og grunnskólastjóra á Þingeyri. Þar sem óskað er eftir að endurskoðað verði það fyrirkomulag að skólastjóri stýri bæði leik- og grunnskóla á Flateyri og á Þingeyri.

Í bréfinu segja Kristbjörg Sunna og Erna að þær telji sig ekki ná ekki almennilega að halda utan um að vera þeir faglegu leiðtogar sem þær vilja vera meðan ábyrgðin dreifist á tvö fremur ólík skólastig. Þá benda þær á að þegar þær breytingar voru gerðar að sameina stöðurnar hafi barnafjöldi á leikskólunum verið helmingi færri en hann er í dag.

Fræðslunefndin afgreiddi erindið þannig að nefndin leggur til að auglýst verði eftir leikskólastjóra í stað deildarstjóra á leikskólanum Grænagarði Flateyri og segir að ekki verði um kostnaðaraukningu um að ræða við breytinguna. Fræðslunefnd kallar jafnframt eftir kostnaðargreiningu frá leik- og grunnskólanum á Þingeyri.

Málið gengur nú til bæjarstjórnar.

DEILA