Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin

Orð þessi úr Grettissögu höfð eftir Atla, bróður Grettis, eiga vel við þann yfirgang í orðræðu sem viðhöfð eru af útgerðarrisa Norðanlands gegn einstaklingum sem gegna eftirlitshlutverki í Seðlabanka Íslands og starfa í fjölmiðlum. Það er mjög nýstárleg aðferð að ráðast með kærum gegn einstaklingum sem falið er að rannsaka meint brot á lögum eða upplýsa um atburði sem vissulega eiga erindi við almenning.

Telji fyrirtæki vera á sér brotið með rannsókn eða upplýsingum sem eru birtar um það, þá á það að sjálfsögðu rétt á að fara með mál sitt til dómstóla og leita réttar síns þar, en slík mál eiga þá að beinast gegn viðkomandi stofnun en ekki starfsmönnum hennar. Árásir á einstaklinga vegna starfa þeirra eru neðan velsæmis og hafa reynst þjóðfélagslega skaðlegar þegar í þeim felst markviss tilraun til að þagga niður í fjölmiðlaumræðu og stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningar.

Sú staðreynd að Ísland færist neðar á lista landa yfir fjölmiðlafrelsi segir sína sögu. Vart getum við verið stoltir af að vera þar langt að baki frændum okkar á Norðurlöndum. Það þarf ekkert að leyna því að hér er verið að tala um útgerðarrisann Samherja sem rekur umfangsmikinn sjávarútveg í ekki færri en 10 löndum. Fyrirtækið hefur farið mikinn í fjölmiðlum, reitt hátt til höggs og oft farið frjálslega með staðreyndir. Til dæmis hefur því verið haldið á lofti að fyrirtækið hafi verið sýknað af meintum brotum sem Seðlabankinn rannsakaði.

Staðreyndin er hins vegar sú að enginn er sýknaður í máli sem ekki er tekið til dóms. Málinu var vísað frá dómi vegna þess að reglugerð um gjaldeyrisskil öðlaðist ekki gildi nema hún væri undirrituð af ráðherra viðskipta- og bankamála. Þá undirskrift vantaði á reglugerðina og því var málið ekki dómtækt. Hvort um var að kenna handvömm í Seðlabanka eða ráðuneyti hefur ekki verið upplýst, en þessi mistök hefur fyrirtækið nýtt sér út í æsar og forstjórinn meira að segja gengið svo langt að láta eins og hann hefði dómaravald með fáheyrðri yfirlýsingu: „Nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi“.

Hitt málið snýr að alvarlegum ásökunum um mútustarfsemi og skattalagabrot í Afríkuríkinu Namibíu. Það mál hefur verið í rannsókn síðan upplýst var um það í heimalandinu Namibíu, bæði á Íslandi og Noregi og nú síðast í Færeyjum. Fátt hefur heyrst um að fyrirtækið hafi gert tilraun til að hnekkja þeim ásökunum sem á það eru bornar með einhverjum rökum en þeim mun meiri kraftur hefur verið settur í að grafa undan æru og trúverðugleika þeirra einstaklinga sem hafa rannsakað og sett fram upplýsingar um málið. Nær væri að fyrirtækið svaraði grundvallarspurningum um starfsemina og gæfi skýringar á sinni hlið mála um þau efni sem það er ásakað um. Eigi þær ásakanir ekki við rök að styðjast myndi það án efa bæta orðspor Íslands sem áralangt vann að þróunarstarfi í sjávarútvegi, sem til fyrirmyndar þótti, einmitt í þessu landi.

Því vildi ég bera fram spurningar í tólf liðum sem mjög svo áhugavert væri að fyrirtækið svaraði:

1. Hvers vegna varð ekkert af uppbyggingu landvinnslu, þ.e. fiskvinnslu og þurrkunarstöð sem átti að skapa að minnsta kosti 500 störf í landi í Namibíu? Fyrirtækið lofaði þessari uppbyggingu ítrekað. Var það ekki grundvallarmál í umræðunni þegar embættismenn Namibíu þáðu rausnarlegar boðsferðir Samherja til Íslands?

2. Hvers vegna eru namibískir meirihlutaeigendur félagsins Arcticnam í lagadeilum við Samherja?

3. Af þeim upplýsingum sem fram hafa komið lítur út fyrir að Samherji hafi fengið kvóta í lögsögu Namibíu verulega undir markaðsverði. Hvað skýrir og réttlætir slíka ívilnun?

4. Hvers vegna völdu þeir ráðamenn í Namibíu, sem nú sæta fangavist, að semja við erlent fyrirtæki eins og Samherja í stað heimamanna þegar gerður var milliríkjasamningur við nágrannaríkið Angóla um fiskveiðar? Er einhver önnur ástæða fyrir brottrekstri og fangavist ráðherra og embættismanna Namibíu en viðskipti þeirra við Samherja. Ef svo er, hver er þá ástæðan?

5. Svo virðist sem þessi „milliríkjasamningur“ hafi nánast engum tekjum skilað namibíska ríkinu. Hvers vegna ekki? Hver eða hverjir högnuðust þá á þessum samningi? Tengist það eitthvað orðum brottrekna dómsmálaráðherrans Sacky Shanghala: „Gentlemen we are in business“?

6. Hvers vegna voru að mestu erlendar áhafnir við veiðar á skipum fyrirtækisins í stað heimamanna? Varla var það til þess fallið að byggja upp öflugan sjávarútveg í landinu eins og lagt var upp með.

7. Hver var tilgangur þess að stofna fyrirtækið Mermaria Investments (síðar Esja Investments) á eyjunni Máritíus án þess að þar væri neinn starfsmaður? Var raunveruleg og verðmæt þjónusta innt af hendi þar sem réttlætti hundruð miljóna virði af þjónustureikningum sem þaðan bárust á útgerðina í Namibíu? Svo vill til að samtökin Tax Justice Network flokka eyjuna Máritíus ásamt Dúbaí sem tvö skaðlegustu skattaskjól Afríku í því að soga til sín auðlindir fátækustu ríkja álfunnar. Gögn sýna að Samherji hagnýtti sér þjónustu beggja þessara landa. Hvers vegna urðu þau fyrir valinu?

8. Hvers vegna voru meirihlutaeigendur í útgerðarfyrirtækinu Arcticnam ekki upplýstir um þessa félagsstofnun á Máritíus sem hafði þó greinilega mikil áhrif á afkomu útgerðarinnar í Namibíu?

9. Var útgerðin í Namíbíu, þegar veidd voru árlega um 100.000 tonn af hrossamakríl, svo óhagkvæm að hún skilaði namíbíska ríkinu nánast engum skatttekjum þrátt fyrir 33% skattskyldu af hagnaði?

10. Hvað skýrir háar ráðgjafagreiðslur til frændanna Tamson og James Hatuikulipi (sá fyrrnefndi tengdasonur sjávarútvegsráðherrans brottrekna, Bernhardts Esau). Ekki var vitað til að þeir byggju yfir þekkingu á sjávarútvegi? Var einhver sérstök ástæða fyrir að greiða ráðgjöf á reikninga í Dúbaí í stað heimalandsins Namibíu?

11. Er til trúverðug skýring á því að sjómenn sem veiða hrossamakríl við strendur Namibíu séu skráðir á færeyskt flutningaskip þegar kemur að launagreiðslum?

12. Að lokum. Voru stjórnendur Samherja sannfærðir um að viðsemjendur þeirra ynnu heiðarlega að hagsmunum síns heimalands og þess vegna stæðust allir samningar við þá skoðun, eða eins og stóð á stóru skilti Samherja: „Nothing to hide“ „ekkert að fela“?

Það mætti spyrja fjölda annarra spurninga um starfsemi fyrirtækisins í landi þar sem Íslendingar nutu álits og velvilja vegna árangursríkrar þróunaraðstoðar. En ef útgerðarrisinn Samherji getur gefið trúverðugar skýringar og svör við atriðunum hér að ofan þ.e. að hvergi hafi verið farið á svig við íslensk, namibísk, norsk eða færeysk lög þá má taka orð þeirra trúanleg að ekkert rangt hafi verið afhafst. En þangað til þær skýringar liggja fyrir, þá dugar sú staðhæfing ein saman ekki.

Ólafur Bjarni Halldórsson

DEILA