Skaginn 3X stækkar þjónustusvið sitt

Í kjölfar kaupa Baader á meirihluta í Skaganum 3X hefur þjónustusvið fyrirtækisins verið eflt til muna. Svanur Þór Sigurðsson hefur verið ráðinn nýr þjónustustjóri Skagans 3X og Róbert Sigfússon, sem lengi hefur farið fyrir þjónustudeildinni, mun taka við sem þjónustusérfræðingur fyrir íslenska markaðinn. Eru breytingarnar liður í því að styrkja starfsemina bæði innanlands og á alþjóðavettvangi segir í fréttatilkynningu frá Skaganum.

Mikil reynsla í að leiða þjónustuteymi “Mér er það mikil ánægja að taka við nýju starfi og leiða þjónustudeild Skagans 3X á þessum breyttu tímum,” segir Svanur Þór Sigurðsson verkfræðingur. “Ég hef alla tíð starfað í kringum búnað fyrir matvælavinnslu og ég hef mikla reynslu í að byggja upp öflugt þjónustuteymi í geiranum. Ég mun nýta mér þá þekkingu til að byggja upp trausta og stöðuga þjónustu fyrir viðskiptavini Skagans 3X. Félagið býr yfir gríðarlega mikilli tækniþekkingu og reynslu í matvælaframleiðslu og við munum halda áfram að byggja hana upp til að mæta þörfum viðskiptavina í dag. Við munum einnig þróa fjarþjónustuna okkar áfram en þar sjáum við mikla möguleika í því að geta brugðist bæði hratt og vel við ákveðum þjónustubeiðnum óháð stað og tíma.“

Skaginn 3X framleiðir hátæknibúnað fyrir matvælavinnslu. Ræturnar liggja í sjávarútveginum en í dag þjóna lausnirnar fisk-, kjöt- og kjúklingavinnslu. Búnaður fyrirtækisins er framleiddur á Íslandi og seldur um allan heim.

DEILA