Kampi: bænum óheimilt að innheimta ekki fyrir veitta þjónustu

Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari Ísafjarðarbæjar segir að Ísafjarðarbæ sé óheimilt að innheimta ekki gjald fyrir afnot af vatni hjá einu fyrirtæki en ekki öðru. „Nauðsynlegt er að gæta jafnræðis hvað þetta varðar og fylgja reglum gjaldþrotaskiptalaga.“ Hún var innt eftir skýringum á því hvers vegna Ísafjarðarbær mótmælti í Héraðsdómi Vestfjarða framlengingu á greiðslustöðvun Kampa.

„Þegar félag stendur ekki í skilum með þessi útgjöld á greiðslustöðvunartímanum eru forsendur fyrir greiðslustöðvun brostnar, enda telst áframhaldandi greiðslustöðvun tilgangslaus. Þar af leiðandi þurfa kröfuhafar að upplýsa dómara um að ekki séu skilyrði fyrir frekari greiðslustöðvun, enda er ekki ætlun laga um gjaldþrotaskipi (sem fela m.a. í sér réttarreglur um greiðslustöðvun) að skuldari auki við skuldir sínar, heldur reyni þvert á móti að rétta úr kútnum.“

„Ef aftur á móti félag í greiðslustöðvun ákveður að greiða útistandandi reikninga til sveitarfélagsins sem verða til vegna veittrar þjónustu á greiðslustöðvunartímabili mun sveitarfélagið ekki standa í vegi fyrir áframhaldandi aðgerðum félags til að bæta rekstur sinn.“

Bryndís Ósk segir að sveitarfélagið hefur verið í góðum samskiptum við lögskipaðan aðstoðarmann Kampa frá því greiðslustöðvun var heimiluð, svo og stjórnendur félagsins, og vonar hún að félagið muni vinna sig út úr þessum fjárhagserfiðleikum innan tíðar.