Háafell: efast ekki um réttmæta niðurstöðu MAST

Í tilkynningu frá Háafelli í Hnífsdal vegna athugasemda Arnarlax við málsmeðferð Skipulagsstofnunar á matsskýrslum um fiskeldi í Ísafjarðardjúpi segir að fyrirtækið efist ekki um að niðurstaða Matvælastofnunar sé réttmæt. Stofniunin hefur auglýst tillögu að rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi á frjóum laxi í Djúpinu. Arnarlax gagnrýnir Skipulagsstofnun og segir að stofnunin hafi dregið að afgreiða matsskýrslu þess í 27 vikur og afgreitt áður matsskýrslur frá tveimur öðrum fyrirtækjum, þrátt fyrir að þær hafi verið lagðar fram síðar.

Matvælastofnun hefur ákveðið að rannsaka málsmeðferð Skipulagsstofnunar og mun fresta því að gefa út rekstrarleyfi á meðan.

Háafell gagnrýnir Arnarlax fyrir framgöngu sína og segir málatilbúnað þess ekki í samræmi við staðreyndir.

„Það er ljóst að Arnarlax hefur gert athugasemdir við málsmeðferð Skipulagsstofnunar og hefur það seinkað langþráðri útgáfu laxeldisleyfis Háafells í Ísafjarðardjúpi. Það er nýtt fyrir okkur að í þessu ferli höfum við þurft að eiga við hótanir um kærur úr ranni annars fiskeldisfyrirtækis en við erum vanari að fá slíkar hótanir úr öðrum áttum. Háafell hefur hinsvegar sterka stöðu og málatilbúnaður Arnarlax er ekki í samræmi við staðreyndir málsins eins og þær liggja fyrir. Því efumst við ekki um réttmæta niðurstöðu MAST í að auglýsa leyfi okkar og að í framhaldinu verði laxeldisleyfið gefið út. Tafirnar sem þetta veldur okkur eru hinsvegar afar óheppilegar.“

DEILA