Bann við lendingu á þyrlu í Fljótavík styðst ekki við lagaheimild

Fljótavík. Mynd: fljotavik.is

Héraðsdómur Vestfjarða hefur sýknað fjóra aðila af ákæru Lögreglustjórans á Vestfjörðum af því aðhafa brotið gegn lögum um náttúruvernd og gegn auglýsingu um staðfestingu á stjórnunar- og verndunaráætlun friðlandsins á Hornströndum með því að hafa staðið fyrir, skipulagt og selt útsýnisflug með tveimur þyrlum þann 13. júlí 2020 um friðlandið á Hornströndum og lendingu þar í Fljótavík án þess að hafa leyfi Umhverfisstofnunar til lendingar.

Það var Umhverfisstofnun sem kærði til lögreglunnar í framhaldi af tilkynningu landvarðar.

Hinir kærðu voru taldir hafa brotið gegn 9. grein auglýsingar nr 161/2019 um stjórnunar- og verndunaráætlun friðlandsins sem bannar að lenda þyrlum innan friðlandsins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar.

Í dómnun segir að ekki sé fullnægjandi lagastoð fyrir 9. grein auglýsingarinnar. Vísað sé í 81. grein laga um náttúruvernd en það lagaákvæði feli ekki í sér neina tilvísun í takmörkun á flugumferð né setji neinn ramma um hugsanlegar reglur. Þá er á það bent í dómnum að heimilt sé flugvélum að lenda á ákveðnum lendingarstöðum samkvæmt staðfestu aðalskipulagi svæðisins og að loftferðalögin geri engan greinarmun á flugvélum og þyrlum. Því sé ekki hægt að hafa aðra reglu um þyrlur en flugvélar.

Niðurstaðan er að stjórnunar- og verndaráætlun friðlandsins gengur lengra en lög heimila og að Umhverfisstofnun og ráðherra fer út fyrir valdsvið sitt.

Athyglisvert er að í málsvörn ákærðu, sem dómurinn rekur sérstaklega, segir að bannið við lendingu á þyrlum sé andstætt jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar (65. gr.) þar sem flugvélum er leyft að enda og einnig andstætt atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar (75.gr.) þar sem ekki verði séð að almannahagsmunir krefjist þess að banna lendingar á þyrlum umfram flugvélar.

Ríkið var dæmt til þess að greiða allan sakarkostnað þar með talið málsvarnarlaun ákærðu.

DEILA