Arctic Fish: tekjur 2,5 milljarður kr á fyrsta ársfjórðungi og 3.800 tonnum slátrað

Dýrafjörður. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Fyrsti ársfjórðungur 2021 var viðburðarríkur hjá Arctic Fish segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Útboð á nýju hlutaf´r heppnaðist vel og var eftirspurn töluvert umfram eftirspurn. Náði félagið að fjármagna sig með nýju hlutafé upp á nettó 341 milljónir norskra króna (NOK) sm jafngildir ríflega 5 milljörðum ísl. króna. Í kjölfarið var félagið skráð á Euronext markaðinn í Osló þann 19 febrúar sl.

Reksturinn hélt áfram að vaxa og frammistaðan var góð. Selt magn var 3.793 tonn og veltan var 169 milljónir NOK, sem bæði voru met í einum fjórðungi í sögu Arctic Fish. EBIT í samstæðunni var 18 milljónir NOK og EBIT á kg af seldum laxi var 5,67 NOK, sem var viðsnúningur frá fyrri fjórðungi. Fyrri fjórðungar, sér í lagi annar, þriðji og fjórði fjórðungur síðastliðins árs voru erfiðir í markaðslegu tilliti og voru laxaverð lág en hækkuðu nú frá síðasta fjórðungi. Markaðsþróunin og gæðin á seldum afurðum höfðu jákvæð áhrif á skilaverðin í fjórðungnum. Þá hélt kostnaðarverð seldra vara áfram að lækka sem hafði jákvæð áhrif á EBIT á hvert selt kg af laxi.

62% eiginfjárhlutfall

Eftir hlutafjáraukninguna og með auknu handbæru fé lækkuðu nettó vaxtaberandi skuldir niður í 112 milljónir NOK og var eiginfjár hlutfallið 62% í lok fjórðungsins. Þá var settur aukinn kraftur í að hanna og undirbúa vaxtar verkefni félagsins sem snúa að stækkun á seiðaeldisstöð og aukningu í afkastagetu við slátrun og vinnslu. Áætlað er að jarðvegsframkvæmdir við stækkun seiðaeldisstöðvarinnar hefjist seint í öðrum ársfjórðungi. Þetta er stórt fjárfestinga verkefni sem er nauðsynlegt til að styðja við frekari vöxt Arctic Fish. Vaxtar áætlanir Arctic Fish miða við að hámarka nýtingu þeirra leyfa og leyfisumsókna sem félagið hefur. Félaginu hefur nú þegar verið úthlutað leyfum til að framleiða um 23.100 tonn af hámarkslífmassa og eru leyfisumsóknir í kerfinu fyrir 8.800 tonnum til viðbótar sem áætlað er að verði úthlutað 2022. Leyfin skiptast í 17.800 tonn af laxi og 5.300 tonn af silung, en áætlað er að umbreyta leyfunum fyrir silung í lax á árinu 2021.

12.000 tonna framleiðsla 2021

Arctic Fish áætlar um 12.000 tonna uppskeru á árinu 2021 og er almenn jákvæðni hjá félaginu gagnvart laxaverðum og skilaverðum á næstu fjórðungum, þó er COVID-19 enn áhættuþáttur. Haldið verður áfram að vinna að nauðsynlegum vaxtar verkefnum auk þess að tryggja að leyfi verði afgreidd eins og áætlanir gera ráð fyrir. Í heild sinni og almennt séð er starfsemin, fjárfestingar og viðskiptaþróunin á áætlun.

DEILA