Að læra um lýðræði í lýðræði

Í Grunnskólanum á Suðureyri hafa verið haldin átta nemendaþing á síðustu þremur skólaárum og það síðasta nú í maí. Tilgangur þinganna er að efla skilning nemenda á þátttökulýðræði og veita þeim tækifæri til að þjálfast í málefnalegri samræðu þar sem reynt er að finna lausnir á viðfangsefnum í skólastarfinu. Það eru þó ekki lausnirnar sem eru lykilatriði hér heldur ferlið sem nemendur ganga í gegnum við það að kryfja ákveðin málefni og reyna að finna lausnir sem koma til móts við þarfir allra í hópnum. Eldri nemendur hafa fengið tilsögn í hvernig vinna þarf í hópum þannig að sjónarmið allra heyrist og að draga saman hugmyndir þannig að hægt sé að kynna eina tillögu frá hverjum hópi. Nemendur skólans eru orðnir vanir svona samræðuþingum og hafa öðlast talsverða færni í að greina mál, spyrja spurninga og komast að sameiginlegum niðurstöðum. Það verklag sem við notum við nemendaþingin er stutt af mörgum greinum í Aðalnámskrá grunnskóla og fellur vel að flestum þáttum sem taldir eru upp sem lykilhæfni við lok grunnskóla.

Þau viðfangsefni sem nemendur hafa tekið fyrir eru meðal annars hvað þeir sjálfir, starfsmenn skólans og foreldrar þeirra geti gert til að bæta námsárangur. Einnig hafa þeir lagt mat á hvað þeir telji gagnlegast af því sem þeir eru að læra í skólanum í dag og hvað þá langi til að læra sem ekki er kennt í skólanum núna og í kjölfar þess erum við að skipuleggja meiri verklega vinnu og leggja drög að vísindaverkefni í tengslum við Space Iceland því krakkana á Suðureyri langar að læra meira um geimvísindi. Nemendur hafa einnig unnið með kynjajafnrétti, einkunnarorð skólans, sett reglur um frímínútur og umgengni. Skilgreint einelti og sett sjálfum sér samskiptareglur til að minnka líkur á að einelti eigi sér stað í skólanum. Á lokaþingi þessa skólaárs fjölluðu þeir um hvernig tækni gæti verið gagnleg eða skaðleg í námi og samskiptum og niðurstaða þess þings verður grunnur að stefnu skólans við notkun tækni í skólastarfinu. 

Nemendur eru ótrúlega skapandi og gera sér góða grein fyrir hvernig samfélagið þarf að vera til að öllum geti liðið vel og fólk haft tækifæri til að eflast og þroskast. Sem dæmi má nefna að nemendur vilja að skólinn sé laus við einelti og vita hvað þarf að gera til að svo megi verða. Þeir vita líka að bestu námsaðstæður þeirra skapast ef þeir geta sjálfir passað að hafa góðan vinnufrið og einbeitt sér að verkefnunum og þeir vilja að foreldrar og starfsfólk skólans hjálpi þeim að gefast ekki upp þó að eitthvað sé erfitt. Í umræðu um jafnrétti kom sterkt fram hjá nemendum að þeir vilja að fólk virði fjölbreytileikann og láti ekki kynjasjónarmið hefta sig eða aðra í að njóta hæfileika sinna.

Þessi vinna með nemendum hefur sýnt okkur skýrt og greinilega að ungt fólk er sannarlega fært um að taka ábyrgð á eigin hegðun og flestir vita hvað þarf að gera til að byggja upp samfélag sem byggir á jafnræði og er styðjandi fyrir alla sem taka þátt. Auðvitað verður krökkunum okkar stundum eitthvað á sem samrýmist ekki ekki þeim viðmiðum sem þeir sjálfir hafa sett og það á við um okkur öll, við gerum hluti sem við vitum innst inni að eru ekki það besta fyrir okkur, en þá er mikilvægt að læra af leiðréttingaferlinu og við sem störfum í skólanum hjálpum krökkunum við það.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum krökkum þegar þeir fara að feta sig áfram í stærra samhengi og þeim áhrifum sem þeir munu hafa á samfélagið sem þeir kjósa að búa í sem fullorðið fólk. Ég er sannfærð um að þessi lýðræðisvinna mun skila sér í viðhorfum þeirra í framtíðinni og að þetta er fær leið til að byggja upp sanngjarnara samfélag fyrir alla.

Jóna Benediktsdóttir

skólastjóri

DEILA