Náttúruverndarsamtök Íslands: furðumálið Hvalárvirkjun

Í ársskýrslu Náttúruverndarsamtaka Íslands fyrir árið 2019, sem lögð var fram á aðalfundi samtakanna í desember 2020, er vikið að Hvalárvirkjun. Þar segir að virkjunin sé eitt af furðuverkum undanfarinna ára.

„Vissulega var virkjunin í nýtingarflokki þeirrar rammaáætlunar sem samþykkt var á vorþingi 2013 en arðsemi slíkrar fjárfestingar var eitt stórt spurningarmerki. Tilgangur framkvæmdarinnar var sömuleiðis óljós.“

Þetta eru athyglisverð ummæli, þar sem andstaða samtakanna viðvirkjunina er rökstudd með skorti á arðsemi en ekki með umhverfisáhrifum. Þá er líka eftirtektarvert að ekkert er gert með þá staðreynd að Hvalárvirkjun hafi verið samþykkt í rammaáætlun í nýtingarflokk og það staðfest á Alþingi. Tilgangurinn með rammaáætlun er einmitt að lögfesta leikreglur um mat og ákvarðanamat á einstökum virkjunarkostum, svo allir aðilar muni una niðurstöðunni þegar hún er komin. Með því að berjast gegn niðurstöðu rammaáætlunarinnar hvað Hvalárvirkjun varðar hafa Náttúruverndarsamtök Íslands og fleiri samtök eins og Landvernd grafið undan rammaáætluninni. Þau hafa sagt að þótt kostur sé í nýtingarflokki sé það engin ákvörðun um að virkjun verði leyfð. Þegar rammaáætlun hefur sett virkjunarkost í biðflokk eða verndarflokk hefur það hins vegar verið endanleg ákvörðun sem ekki hefur mátt hagga við. Guðni Jóhannesson, Orkumálastjóri vék einmitt að þessu í nýársávarpi sínu um síðustu áramót og sagði að rammaáætlunarferlið væri orðið að martröð og tímabært að leggja það niður.

Síðasta vatnsaflsvirkjunin ?

Þá segir í skýrslunni:

„Í fyrirsjáanlegri framtíð bendir margt bendir til að Hvalárvirkjun verði síðasta vatnsaflsvirkjunin sem veldur deilum á Íslandi. Landsvirkjun áformar að byggja vindmyllugarða sem eru mun hagkvæmari en vatnsaflið en vindorka er mun ódýrari en vatnsaflsvirkjanir og verðið fer lækkandi um heim allan.“

Þarna er látið eins og nýting vindorku sé það sem koma skal og einhugur sé um. Það er öðru nær. Vindmyllugarðarnir eru líka farnir að valda deilum. Fuglaverndarfélagið varar við því að vindmyllugarðar verði leyfðir á farleiðum fugla og á búsvæðum hafarna og hvetur til varfærni og vandaðs umhverfismats. Formaður félagsins sagði í sjónvarpsviðtali á síðasta ári : „Það er eins og eitthvert gullgrafaraæði sé í gangi. Menn hlaupa eins og landafjandar um allt land og reka niður hæla og segja: Hér vil ég byggja!“ Umhverfisráðherra segir til skoðunar hvort útiloka eigi vindmyllugarða á friðlýstum svæðum og viðkvæmum fuglasvæðum. Landvernd segir í nýlegri umsögn að vindorkuver eigi að fella undir rammaáætlun og hafa uppi ýmis skilyrði og takmarkanir á starfsemi þeirra. Umræða og áherslur þessara umhverfssamtaka er að síga í þekktan farveg.

Stjórn samtakanna skipa:

Árni Finnsson, formaður
Sveinn Atli Gunnarsson, gjaldkeri
Finnur Guðmundsson Olguson
Hrönn Guðmundsdóttir
Ragnheiður Júlía Ragnarsdóttir.

-k