Hafnarstjóri vísar á bug ásökunum frá Súgfirðingum

Í síðasta mánuði gengu á fund bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fulltrúar þriggja fyrirtækja á Suðureyri sem gerðu athugasemdir við tómlæti í innviðauppbyggingu og þjónustu í þorpinu. Var meðal annars vikið að embætti hafnarstjóra Ísafjarðarhafna í bréfi þeirra og var hann talinn hafa hallað máli Súgandafjarðar í upplýsingagjöf til skemmtiferðaskipa sem gjarnan vilja taka land í Súgandafirði. Þá var embætti hafnarstjóra talið hafa fullyrt við laxeldisfyrirtæki sem skoðuðu uppbyggingu á sláturhúsi í Súgandafirði að ekki væri hægt að tryggja nægjanlegt dýpi með dýpkun og hefur
líkt því við Landeyjarhöfn.

Birt hefur verið svarbréf hafnarstjóra. Hann segir Suðureyrarhöfn hafa verið í forgangi í uppbyggingu og þar hafi stærstu verkefni hafnarsjóðs frá árinu 2014 til 2020 verið, með heildarkostnað upp undir 200 miljónir. „Að halda því fram að Súgfirðingar hafi verið utanveltu í innviðauppbyggingu er því ekki sanngjarnt.“ segir hafnarstjóri.

Þá segir hann ekki kannast ekki við að Suðureyri sé haldið sérstaklega út undan þegar að því kemur að
kynna Ísafjarðarbæ á ráðstefnum erlendis eða innanlands fyrir erlendum skemmtiferðaskipum. Loks víkur hafnarstjóri að athugun fyrir laxasláturhús, Um það segir hafnarstjóri „Eftir að hafa séð að samningur um landbyggingu var til umræðu í bæjarráði ákvað ég að taka málið upp utan dagskrár á hafnarstjórnarfundi. Þar spurði ég formann hafnarstjórnar, sem einnig er bæjarráðsmaður, um hvað samningurinn um landfyllingu og hafnargerð innan við Brjótinn á
Suðureyri snerist.“

Að fengnum svörum formanns hafnarstjórnar áréttaði hafnarstjóri þá „að það væri nauðsynlegt fyrir hafnarstjórn að fá upplýsingar um hvernig væri verið að hugsa um hafnargerð á þessum stað, t.d. hvað varðar viðlegudýpi og lengd hafnarkants, þar sem það tæki langan tíma að koma slíkum verkefnum inn í verkefnaáætlun Samgönguáætlunar
ríkisins og Hafnamálasviðs Vegagerðarinnar.“

Ekkert slíkt erindi hefur borist á borð hafnarstjóra eða hafnarstjórnar segir svarbréfinu.